16.12.2014 18:50

Þriðjudagur 16. 12. 14

Rússneska hagkerfið er svo háð útflutningi á olíu að engan þarf að undra að rúblan falli um tæp 60% þegar olíuverð lækkar í 57 dollara tunnan úr 107 dollurum í sumar. Rússneski seðlabankinn reyndi að stöðva gengisfallið með því að hækka stýrivexti úr 10,5% í 17% fyrir upphaf viðskipta í morgun. Allt kom fyrir ekki, rúblan hélt áfram að falla í dag og líkja menn ástandinu við það sem gerðist í Rússlandi 1998 þegar lá við ríkisgjaldþroti. Stjórnvöld leituðu á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans til að halda ríkinu á floti. Eftir að Vladimír Pútín og félagar innlimuðu Krím eiga þeir ekki greiðan aðgang að alþjóðasjóðum sér til hjálpar.

Fréttir herma að kaupæði hafi gripið um sig meðal þeirra í Rússlandi sem eiga sparifé og þeir leggi nú leið sína í verslanir til að kaupa rafmagnstæki, tölvur, sjónvörp, síma, húsgögn og ökutæki áður en varningurinn hækkar í verði eða hverfur alfarið úr verslunum vegna viðskiptabanns Vesturlanda.

Vaxtahækkun seðlabankans á meðal annars að veita bönkum vernd gegn því að sparireikningar tæmist. Ólíklegt er að það takist og því er hætta á að bankar gangi á eigið fé sitt eða velti einfaldlega á hliðina vegna þess hve fá tækifæri þeir hafa til að endurfjármagna sig eftir rof í viðskiptum þeirra við Vesturlönd. Á hinn  bóginn er líklegt að gæslumenn banka á Vesturlöndum hefji baráttu gegn viðskiptaþvingunum gagnvart rússneskum bönkum sem skulda vestrænum bönkum hundruð milljarða dollara.

Stjórnarhættir Vladimírs Pútíns hafa annars vegar einkennst af því að hann hefur opnað Rússum aðgang að meira vöruúrvali en nokkru sinni hefur þekkst í sögu Rússlands og ekki lagt hömlur á viðskipti með varning sem áður var aðeins á færi yfirstéttar landsins að eignast, hins vegar hefur Pútín þrengt frelsi til upplýsingamiðlunar og skoðanamyndunar. Frelsið til viðskipta og þjóðernishyggja í þágu Stór-Rússlands hefur helst stuðlað að vinsældum Pútíns meðal almennings. Nú steðjar mikil hætta að þessu tvennu. Ónýt rúbla þrengir möguleika almennings til að njóta vöruúrvalsins samhliða bítandi áhrifum viðskiptaþvingana, draumurinn um Stór-Rússland verður að engu neyðist Pútín til að taka sér betlistaf í hönd.