19.9.2016 10:00

Mánudagur 19. 09. 16

Þeir sem telja sig helstu boðbera nýrra tíma í stjórnmálum eftir hrun segjast allir leggja megináherslu á gagnsæi og ríkan vilja sinn til að upplýsa þjóðina um allt sem þeir gera og ætla að gera. Þegar betur er að gáð sést að þetta er allt vísvitandi blekkingartal.

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. stundaði svo umfangsmikla blekkingariðju að segi menn frá henni eru þeir sakaðir um að stunda blekkingar. Einkavæðing bankanna til andlitslausra kröfuhafa vorið 2009, Icesave-samningarinar og ESB-aðildarferlið; öll þessi mál voru rekin í krafti blekkinga.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er rakið hvernig meirihlutinn í borgarstjórn, fyrst í tíð Jóns Gnarrs og Dags B., hefur þóst standa vel að rekstri leik- og grunnskólakerfi borgarinnar en í raun beitt blekkingum til að leyna borgarbúa hve illa nemendur í grunnskólum borgarinnar standa að vígi. Má þar nefna niðurstöðu í síðustu PISA-könnun. Í leiðaranum segir:

„Ekki voru allir eins áhyggjufullir af stöðu mála [vegna PISA] og kennarar. Í umræðum um PISA-niðurstöðurnar í borgarstjórn sló þáverandi borgarstjóri á létta strengi og fór með gamanmál.

Meirihlutinn í borgarstjórn reyndi að halda niðurstöðum PISA-könnunarinnar fyrir grunnskóla í Reykjavík leyndum fyrir almenningi. Jafnvel foreldrafélög og fulltrúar foreldra í skólaráðum grunnskóla áttu ekki að fá að sjá þær. Það var ekki fyrr en fjórum vikum eftir borgarstjórnarkosningarnar 2014 að niðurstöðurnar fengust birtar, og það eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði að borginni væri skylt að birta þær.“

Pukur- og blekkingarstefnan ræður enn í skólamálum Reykjavíkur. Henni hefur einnig verið beitt til að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll.

Þriðja dæmið sem hér skal nefnt er ferlið ótrúlega hjá Pírötum við ákvarðanir um framboðslista vegna kosninganna 29. október. Þar er reynt að leyna ofríki fámennrar klíku sem lítur á flokkinn sem eign sína og svífst einskis til að koma ár sinni fyrir borð. Út á við láta forráðamenn Pírata eins og þeir berjist fyrir opnari og gegnsærri stjórnarháttum en allir aðrir. Þegar á reynir hjá þeim sjálfum nýta þeir sér hins vegar ófullburða leikreglur innan eigin flokks til að níðast á frambjóðendum sem eru þeim ekki að skapi.