4.9.2016 13:30

Sunnudagur 04. 09. 16

Árið 2006 greiddu 10.486 atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í prófkjöri í mars 2009 voru atkvæðin um 7.800, á árinu 2012 voru 7.322 atkvæði gild í prófkjörinu í Reykjavík en aðeins 3430 laugardaginn 3. september 2016 eða um 32% af þeim sem kusu árið 2006 í prófkjöri flokksins.

Frá 2006 hefur margt breyst, meðal annars framkvæmd prófkjöra og umsvif frambjóðenda fyrir þau. Það dugar þó ekki til að skýra minni þátttöku í prófkjörinu fyrir 10 árum og nú. Í þessum tölum endurspeglast stærsti vandi Sjálfstæðisflokksins, hann hefur tapað sterkri stöðu sinni í Reykjavík. 

Fallið í fjölda kjósenda í prófkjörinu milli kosninganna 2012 og núna er sláandi. Frambjóðendur og ráðamenn í flokksstarfinu í Reykjavík hljóta að átta sig á að staðan er í raun óviðunandi. Á árum áður lyfti fylgið í Reykjavík flokknum í öllum könnunum en nú dregur það hann niður.

Hér eru margir þættir sem hljóta að koma til skoðunar og snúa þeir að málefnum, mönnum og flokksskipulagi. Þeir sem telja sig búa yfir ráðum til að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn í höfuðborginni ættu að taka höndum saman og láta til skarar skríða. Of lítils frumkvæðis í þá veru hefur gætt.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var í dag vitnað til framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins á þann veg sem birtist síðan á ruv.is: „Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri flokksins, segir margt skýra þetta [minni kjörsókn]. Stutt hafi verið frá því framboðsfrestur rann út þar til kosið var, einhugur hafi verið um efsta sætið og prófkjörið hafi verið prúðmannlegt og lítið um auglýsingar.“

Vissulega er þetta allt rétt hjá framkvæmdastjóranum en betur má ef duga skal. Finna verður leið fyrir flokkinn til að auka fylgi sitt í Reykjavík án þess að frambjóðendur í prófkjöri greiði kostnað af því eða láti prúðmannlega framgöngu lönd og leið. Fjárhagur flokksins leyfir örugglega ekki aðkeypta og nákvæma greiningu á vanda hans í Reykjavík, undan slíkri greiningu verður þó ekki komist sé hún nauðsynleg til að skapa Reykvíkingum og þjóðinni sambærilegt framfaraafl og Sjálfstæðisflokkurinn var í höfuðborginni á árum áður.

Frambjóðendum eru færðar heillaóskir.