18.9.2016 14:15

Sunnudagur 18. 09. 16

Nokkrar umræður hafa orðið um afgreiðslu alþingis á nýjum búvörusamningi. Þær snúast einkum um að 19 þingmenn hafi samþykkt hann, ríflegur minnihluti hafi þannig skuldbundið ríkið og skattgreiðendur. Efni málsins snýst um að skapa grundvöll fyrir landbúnaðarstarfsemi í landinu með samningi ríkis og bænda. Að sjálfsögðu ber að tryggja slíkan grundvöll til langs tíma, Ísland án landbúnaðar er staðleysa.

Stjórnarskráin heimilar að mál séu afgreidd á þennan hátt á alþingi. Ekki hafa heyrst neinar raddir um að krefjast beri aukins meirihluta á þingi þegar afgreidd eru mál tengd bændum. Í 48. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Enginn talar meira um stjórnarskrána á þingi en Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. Spurning er hvort hún vilji breyta ofangreindu ákvæði og skylda þingmenn til að fara að reglum frá kjósendum sínum. Það væri að minnsta kosti í samræmi við afstöðu hennar til búvörusamningsins. Birgitta sagði í Kvennablaðinu föstudaginn 16. september: 

„Í hjarta mínu vildi ég segja NEI [við búvörusamningnum], ég ákvað að virða vinnureglur okkar og fylgja dómgreind þeirra sem áttu áheyrn í nefndinni [...] Það eru skrilljón mál í nefndum núna og ég hef kallað eftir aðstoð úr grasrót til að aðstoða við að lesa yfir þau svo að ég sé að taka ákvarðanir betur í takt við vilja grasrótar Pírata.“

Af þessum orðum má ráða að Birgitta brjóti hvað eftir annað gegn 48. gr. stjórnarskrárinnar í starfi sínu sem þingmaður. Hún segist bundinn af reglum kjósenda sinna fyrir utan að taka ekki ákvarðanir með vísan til eigin sannfæringar heldur „í takt við vilja grasrótar Pírata“. 

Þetta er ekki eini tvískinnungur Birgittu Jónsdóttur kafteins þegar dregur að kosningum. Upplýst er að hún beitti sér fyrir eyðileggingu á prófkjöri Pírata í norðvesturkjördæmi til að pota sínum manni ofar á lista en grasrótin vildi. „Birgitta Jónsdóttir, fór hamförum á leynilegri síðu flokksins“ segir Lilja Magnúsdóttir í kjördæmisráði Pírata á Pressunni laugardaginn 17. september þegar hún lýsir aðförinni að sigurvegaranum í prófkjörinu sem flokkseigendur Pírata fældu frá að berjast áfram fyrir sæti sínu í kosningu um framboðslista í kjördæminu meðal Pírata um land allt.

Birgitta var potturinn og pannan í prófkjörsplottinu í norðvesturkjördæmi og hefur síðan kallað fólk á fundi (með vinnustaðasálfræðingi?) til að segjast hafa meint annað en hún sagði!