17.9.2016 13:15

Laugardagur 17. 09. 16

Formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa birt samantekt eða skýrslu sem snýr að einkavæðingu bankanna undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, þáv. fjármálaráðherra, sem framkvæmd var með leynd vorið 2009 á þeim tíma þegar ráðherrann var uppnuminn yfir því að félagi hans Svavar Gestsson væri að ná glæsilegri niðurstöðu í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana. 

Niðurstöðu Svavars átti að hraða með leynd í gegnum þingið í júní 2009 af ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. en umslagi með Icesave-samningunum var laumað nafnlaust inn á fréttastofu ríkisútvarpsins. Í ljós kom að um nauðungarsamninga var að ræða. Þeim var síðan hafnað tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu og að lokum sigraði málstaður Íslendinga fyrir EFTA-dómstólnum. Öll baráttan gegn Icesave-uppgjöfinni var í óþökk Steingríms J.

Því miður var einkavæðing Steingríms J. á bönkunum til andlitslausra kröfuhafa ekki tekin sömu tökum og Icesave-samningar hans og Svavars. Um einkavæðinguna hefur hins vegar verið fjallað síðan en ekki á þann markvissa hátt sem þarf til að leiða allan gang málsins í ljós.

Segja verður þá sögu eins og hún er að brotalöm er í ágætu framtaki formanns og varaformanns fjárlaganefndar. Þau sækja málið meira af kappi en forsjá og lenda í endalausum þrætum um aðferð sína og orðalag. Andstæðingar þess að efni málsins sé reifað halda sig við orðhengilsháttinn og formsatriðin og höfundar skýrslunnar hafa í raun misst forræði málsins og hrekjast undan vegna umræðna um aukaatriði í stað þess að koma efnisatriðunum til skila – tilefni þess að þau réðust í verkið.

Sé litið á PR-hlið málsins er hún í molum af hálfu málshefjenda. Engu er líkara en þau hafi ekkert leitt hugann að þessari mikilvægu hlið. Hefði þeim þó mátt verða ljóst strax eftir fyrsta samtalið við formann fjárlaganefndar um málið í Kastljósi, þar sem fréttamaðurinn talaði fyrir munn Steingríms J., að skýrslu þeirra yrði ekki fagnað af fréttahaukum ríkisins. 

Einkennilegt er að heyra þá sem bera blak af Steingrími J. í þessu máli tala á þann veg að honum sé til afsökunar að staða mála hafi verið erfið og flókin á þessum tíma og erfitt sé að setja sig í þau spor núna. Það verði með öðrum orðum að líta á yfirsjónir hans, hafi verið um þær að ræða, mildum augum. Málflutningur af þessu tagi er í hróplegri andstöðu við öll viðbrögð Steingríms J. sjálfs þegar hann grípur til stóryrða og hótana í garð andstæðinga sinna. Hann stóð til dæmis fremstur í röð þeirra sem drógu Geir H. Haarde fyrir landsdóm  en sagðist gera það með „sorg í hjarta“!