Fimmtudagur 08. 09. 16
Samtal mitt við Pál Magnússon, frambjóðanda í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, er komið á netið og má sjá það hér.
Enn á ný er ástæða til að halda furðufrétt úr prófkjöri Pírata til haga hér á síðunni. Yfirprófkjör, það er með þátttöku Pírata af landinu öllu, fór fram vegna listans í Norðvesturkjördæmi. Var til þess efnt vegna ásakana um að sá sem varð efstur þegar kosið var innan kjördæmisins reyndist „sekur“ um smölun atkvæða – 18 atkvæði honum greidd þóttu sanna það.
Lauk yfirprófkjörinu miðvikudaginn 7. september og sigraði Eva Pandora Baldursdóttir. Hún lenti í fjórða sæti í prófkjöri heimamanna og Gunnar Ingiberg Guðmundsson í sjötta en hann varð í öðru sæti nú.
Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 8. september er vakin athygli á að Gunnari Ingibergi „var raðað langoftast frambjóðenda í efsta sæti á listanum“ í yfirkosningunni. Röðuðu 86 honum efst á lista en til samanburðar var Eva Pandora sett 49 sinnum efst á lista.
Þar sem Evu Pandoru var oftar raðað ofar á lista en Gunnari hlaut hún efsta sæti á listanum. Gunnari var á hinn bóginn raðað 17 sinnum í ellefta og neðsta sæti á listanum en Evu Pandoru aldrei. Í heild var Evu raðað 233 á lista en Gunnari 236 sinnum.
Menn þurfa ekki að búa yfir neinni sérkunnáttu til að átta sig á að skipulega hefur verið unnið gegn Gunnari í prófkjörinu á landsvísu að öllum líkindum með smölun. Nú bregður hins vegar svo við að yfir-kafteinn Pírata, sjálfur Smári McCarthy, segir ekki víst að um smölun hafi verið ræða: „Ég hef litlar áhyggjur af þessu. Það er aldrei hægt að stýra kosningahegðun. Maður verður að treysta fólki í lýðræðisstarfi. Þó svo að við bönnum smölun er aldrei alveg hægt að staðfesta hana 100 prósent,“ segir hann við Morgunblaðið.
Með öðrum orðum: Málið er dautt. Flokkseigendur eru sáttir. Sé smalað í þágu óverðugra er gripið til refsinga, sé smalað gegn óverðugum „verður að treysta fólki“.