1.9.2016 14:30

Fimmtudagur 01. 09. 16

Samtal mitt við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Þórdís Kolbrún er aðstoðarmaður innanríkisráðherra og í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna í norðvesturkjördæmi nk. laugardag þar sem hún óskar eftir stuðningi í 2. sætið.

Henni var tíðrætt um nauðsyn þess að standa vörð um innviðina á landsbyggðinni eins og annars staðar á landinu. Ég spurði hvort nokkur stofnaði til umræðu við hana um nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni þegar hún hitti kjósendur. Hún sagði svo ekki vera. Áhugamenn um það væru líklega í öðrum flokkum. Ég minnti á sérstakt framboð hefði verið vegna breytinga á stjórnarskránni í kosningunum 2013.

Líklega er tillagan nauðsyn þess að kollvarpa stjórnarskránni vegna hruns bankakerfisins vitlausasta tillagan sem fram hefur komið vegna hrunsins. Næst vitlausasta en þó dýrari er svikatillagan um ESB-aðild Íslands. Undarlegt er að vegna þessara tillagna hafa orðið til tveir stjórnmálaflokkar: Lýðræðisvaktin 2013 vegna stjórnarskrárinnar og Viðreisn núna vegna ESB-málsins.

Fylgi Lýðræðisvaktarinnar í alþingiskosningum 2013 var 2,46461546601762% eins og sagði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í febrúar 2016. Lýðræðisvaktin taldi að námunda ætti fylgið við 2,5% en það er atkvæðamagnið sem nauðsynlegt er svo stjórnmálaflokkur fái fjárframlag frá ríkinu. Flokksmenn fengu því engan styrk frá ríkinu vegna framboðs síns.

Nú segir hvað eftir annað í fréttum að þjóðkunnir Íslendingar verði í framboði fyrir Viðreisn. Frambjóðendur Lýðræðisvaktarinnar voru vissulega þjóðkunnir og töldu sig eiga brýnt erindi við þjóðina, fylgið reyndist þó ekki meira. 

Lýðræðisvaktin fór ekki leynt með meginstefnumál sitt eins og Viðreisn gerir núna, flokkurinn flaggar ekki ESB-aðildinni þótt hún sé ástæða framboðsins.

Ég spurði Þórdísi Kolbrúnu um Sundabrautina sem yrði til að greiða fyrir allri umferð á Vesturland sem nú fer um Mosfellsbæ. Hún sagði afstöðu borgaryfirvalda í Reykjavík óljósa. Það er stórundarlegt því árið 2002 var lagning Sundabrautar eitt af höfuðmálunum i borgarstjórnarkosningum Síðan hefur málið orðið að engu og í Reykjavík hefur skipulagsvandi vegna brautarinnar ekki einu sinni verið leystur enn.

Stjórnarhættir í Reykjavík eru til skammar. Í blöðum í morgun má lesa að í Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði þar sem íbúar búa ekki við vinstri stjórn sé fjárhagsstaða leikskóla mun betri en í borginni og starf þeirra sé ekki sligað af  uppsöfnuðum halla fyrri ára.