23.9.2016 19:15

Föstudagur 23. 09. 16

Vefritið Kjarninn vill láta taka sig hátíðlega og ritstjórar þar skrifa af töluverðu yfirlæti um stjórnmál og segjast nú hafa komið á fót einhverju sem þeir kalla staðreyndavakt til að veitast að stjórnmálamönnum sem þeir eru ósammála – þrátt fyrir að skrifa eins og þeir séu hafnir yfir stjórnmálakarp eru þeir þátttakendur í því og líta ekki á allar hliðar mála ef þeir vilja styðja málstað eins á kostnað annars. Þetta gerist á staðteyndavakt þeirra föstudaginn 23. september þegar eftirfarandi orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eru dæmd sem „haugalygi“ hvorki meira né minna. Bjarni sagði í sjónvarpsumræðum 12 flokksfulltrúa fimmtudaginn 22. september:

 „Þetta er bara rangt að þetta [að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ESB-aðild] hafi verið helsta lof­orð okk­ar. Okkar lof­orð hefur staðið til þess að halda Íslandi utan Evr­ópu­sam­bands­ins[...] Í kjarn­ann vorum við að segja það að við vorum viljug til að beita þjóð­ar­at­kvæða­greiðslum til að höggva á hnút­a.“

Í skýringum Kjarnans á orðum Bjarna fara þeir á staðreyndavaktinni yfir ummæli frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninganna 2013 en láta þess alfarið ógetið að það hefur allt frá 2009 verið stefna Sjálfstæðisflokksins að ekkert skuli gert varðandi aðild að ESB nema það sé fyrst borið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Þeirri stefnu var hafnað 16. júlí 2009 þótt allir flokkar séu nú þeirrar skoðunar að ekkert skref verði framar stigið í ESB-málinu nema fyrst sé leitað til þjóðarinnar.

Kosningaúrslitin vorið 2013 voru svo afgerandi gegn ESB-flokkunum að fráleitt hefði verið að stjórn flokka á móti ESB-aðild færi að bera málið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Áróður ESB-aðildarsinna og nú Kjarnans í þá veru er hluti af blekkingariðjunni sem ESB-aðildarsinnar hafa beitt frá 2009, blekkingariðju sem var svo rækilega afhjúpuð í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ að það er í raun furðuleg bíræfni þessara aðila að láta eins og þeir hafi efni á að saka andstæðinga sína um „haugalygi“ undir merkjum staðtreyndavaktar.

Það er eftir öðru að ESB-aðildarsinnar vilji ræða ESB-málið áfram í anda blekkinga. Blekkingar verða ekki að staðreyndum þótt menn þykist standa staðreyndavakt.