5.9.2016 15:00

Mánudagur 05. 09. 16

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt frá niðurstöðum nýrrar könnunar Maskínu fyrir Íslandsdeild Amnesty International sem sýndi að tæplega 74% Íslendinga teldu að stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa flóttafólki.

Marktækur munur var á afstöðu karla og kvenna. Fleiri konur voru sammála því að flóttamenn sem væru að flýja stríð eða ofsóknir ættu að geta leitað hælis í öðrum löndum eða 57,2 prósent samanborið við 43,7 prósent karla. Einnig voru marktækt fleiri konur en karlar tilbúnar til að taka á móti flóttamönnum inn í hverfið sitt. Ekki var munur á milli kynjanna hjá þeim (13%) sem sögðust tilbúin að hleypa flóttamanni inn á heimili sitt.

Sömu spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnun Globescan sem aðalstöðvar Amnesty International létu gera í 27 löndum í maí 2016. Sú könnun náði þvert á allar heimsálfur. Þegar niðurstöður eru bornar saman kemur í ljós að íslenskir þátttakendur eru jákvæðari í garð flóttamanna en þeir sem svöruðu Globescan könnuninni. Miklu fleiri eru tilbúnir til þess að taka á móti flóttafólki i í hverfið sitt, en einungis 22 prósent svarenda í Globescan könnuninni sögðu tilbúin til þess, samanborið við 52,2 prósent íslenskra svarenda. Þá eru færri sem eru sammála eða mjög sammála því í könnun Globescan að flóttamenn sem flýja ofsóknir og stríð geti leitað hælis í öðrum löndum, 72 prósent, samanborið við 84,6 prósent íslenskra svarenda.

1.159 svöruðu könnun Maskínu sem fór fram á netinu og dagana 22. júlí til 2. ágúst.

Fróðlegt er að skoða þessa niðurstöðu í ljósi frétta frá Þýskalandi sem sýna að flokkurinn Alternative für Deutschland (AfD), sem leggst gegn útlendingastefnu Angelu Merkel kanslara og vill loka Þýskalandi fyrir aðstreymi farand- og flóttafólks, vann í gær stórsigur í sambandslandinu Mecklenburg-Vorpommern og ýtti flokki Merkel (CDU) í þriðja sæti á sambandslandsþinginu. Er það mál manna að stefna Merkel í útlendingamálum dragi hratt úr vinsældum hennar, fólk vilji ekki að Þýskaland sé opnað á þann hátt sem Merkel gerði í fyrra.

Óvíst er hvort Merkel býður sig fram í sambandsþingskosningum haustið 2017. Hana skorti traust og fylgi. Hún ætti að bjóða sig fram hér þar sem svona mikill hljómgrunnur er fyrir útlendingastefnu hennar.