20.9.2016 15:00

Þriðjudagur 20. 19. 16

Alþingi hefur verið rofið og boðað er til kosninga laugardaginn 29. október. Þetta er rökrétt ákvörðun miðað við þáttaskilin sem urðu í stjórnarsamstarfinu þriðjudaginn 5. apríl þegar þingflokkur framsóknarmanna tilkynnti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG) flokksformanni að hann nyti ekki lengur trausts til að gegna embætti forsætisráðherra. Dró til þessara stórtíðinda eftir að sjónvarpsviðtal við SDG í Kastljósi sunnudaginn 3. apríl.

Raunar er skynsamlegt að efna til kosninga í haust hvað sem örlögum fráfarandi forsætisráðherra líður þar sem orðið hafa þáttaskil í stöðu þjóðmála vegna góðra verka ríkisstjórnarinnar á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála. Þar hefur allt gengið á besta veg. Leið hefur verið mörkuð út úr gjaldeyrishöftunum og stór skref stigin á henni, verðbólga er lág, atvinnuleysi lítið, kaupmáttaraukning mest í sögunni og hagvöxtur meiri en í nálægum löndum. Við þessar aðstæður er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir leiti eftir nýju umboði og kynni hvernig þeir ætla að nýta sér nýjar og góðar aðstæður þjóðinni til heilla.

Nú eru fimm vikur til kosninga. Framboðslistar fæðast og síðan hljóta málefnin að verða kynnt. Margir hafa saknað þess að ríkisstjórnin sem enn situr hafi ekki gert nægilega vel og skipulega upp við stefnu og stjórnarhætti hreinu vinstri stjórnarinnar sem sat 2009 til 2013 og tafði fyrir framförum, laut forræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þorði ekki að gæta hagsmuna þjóðarinnar út á við af því að hún vann að svartasta kaflanum í utanríkissögu lýðveldisáranna með ESB-aðildarbröltinu.

Þegar stjórnarskipti urðu 1991 og Davíð Oddsson varð forsætisráðherra hratt hann af stað skýrslugerð um svonefndan fortíðarvanda, það er arfleifð fyrri ríkisstjórnar eða stjórna til að árétta skilin sem urðu með nýjum stjórnarháttum. Sigmundur Davíð beitti sér ekki fyrir neinu slíku þegar hann varð forsætisráðherra. Skilin urðu því aldrei nógu skörp. Að vísu var samin skýrsla um meðferð ESB-aðildarmálsins þar sem svipt var hulunni af blekkingartalinu, meðal annars um að semja mætti við ESB án þess að tapa ráðum yfir 200 sjómílunum og ákvörðunum um heildarafla.

Þörfin á slíku uppgjöri við stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms J. verður augljósari en áður þegar fylgst er með áköfum deilum á alþingi um einkavæðingu bankanna til andlitslausra kröfuhafa undir stjórn Steingríms J. vorið 2009. Þar er aumur blettur á Samfylkingu og VG auk þess sem ráðgjafar og embættismenn kveinka sér. Vonandi tekst að kreista óþverrann úr þessu sári eftir hrun þrátt fyrir kveinstafina.