28.9.2016 16:30

Miðvikudagur 28. 09. 16

Í dag ræddi ég við Hildi Sverrisdóttur, borgarfulltrúa og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins til alþingis í Reykjavík suður, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn fer fyrstmí loftið kl. 20.00 kvöld.

Fjölþjóðlegur hópur rannsakenda birti í dag þá niðurstöðu að MH17 Boeing 777 farþegavélin á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur í Malasíu 17. júlí 2014 hafi verið skotin niður yfir austurhluta Úkraínu með BUK-skotflaug á hreyfanlegum skotpalli sem ekið var frá Rússlandi inn á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í Úkraínu og þaðan aftur til Rússlands eftir árásina sem varð 298 manns að bana.

Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöðu í sakamálarannsókn í Hollandi. Stjórnvöld í Moskvu neita því staðfastlega að aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum eigi hér hlut að máli. Rússar segjast hafa undir höndum ratsjárgögn sem staðfesti þessa fullyrðingu sína. Bráðabirgðaniðurstaðan sem nú hefur verið kynnt af saksóknara í Hollandi er samhljóða niðurstöðu tæknilegrar rannsóknar sem kynnt var í Hollandi í október 2015.

Þessar fréttir berast á sama tíma og Rússar neita að kannast við ábyrgð sína á árásum á birgðalestir og sjúkrahús í Aleppo í Sýrlandi og fulltrúar þeirra hér á landi bregðast dólgslega við fréttum um háskaflug rússneskra hervéla á flugleiðum farþegavéla til og frá Íslandi.

Erfitt er að átta sig á hvað fyrir rússneskum yfirvöldum vakir með þessari hryssingslegu framkomu, hvað þau telji sig hafa upp úr henni. Vegur þeirra vex ekki almennt á alþjóðavettvangi með henni en ef til vill er þeim sama um það og vilja einmitt sýna að þau fari sínu fram á eigin forsendum en ekki annarra.

Eitt er hvernig Pútín og félagar telja sér sæma að ganga fram gagnvart öðrum hitt er hvernig stuðningsmenn hans hér og annars staðar reyna að bera blak af honum.

Alexeij Shadiskij, ráðunautur í rússneska sendiráðinu í Reykjavík, sagði að menn reyndu að vekja Rússagrýluna til lífs með frásögnum af háskaflugi rússnesku hervélanna 22. september. Ummæli hans og annarra rússneskra embættismanna vegna atviksins sýna að þeir eru einfærir um að blása lífi í grýlu og þurfa ekki aðstoð annarra til þess.