29.9.2016 13:30

Fimmtudagur 29. 09. 16

Samtal mitt við Hildi Sverrisdóttur, borgarfulltrúa og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, er komið á netið og má sjá það hér

Á vefsíðu Andríkis, Vef-Þjóðviljanum, birtist 27. september mynd af níu körlum þeir eru: Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóri, Gunnar Smári Egilsson ritstjóri, Illugi Jökulsson rithöfundur, Egill Helgason útvarpsmaður, Þorvaldur Gylfason prófessor, Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Hallgrímur Helgason rithöfundur og Stefán Ólafsson prófessor. Pistill fyrir neðan þessar andlitsmyndir hefst á þessum orðum:

„Hópur svonefndra álitsgjafa og pistlahöfunda hefur í áratugi reynt að telja Íslendingum trú um að lýðveldið Ísland sé aumt framtak, nánast allt sem gert er hér á landi beri vott um heimsku landsmanna, stjórnarskráin sé ónýt, níðst sé á náttúrunni, auðlindum sé rænt, ójöfnuður sé agalegur, kynjamisrétti ógurlegt, stjórnmálastéttin sé gjörspillt og þeir sem kjósi hana til valda séu fábjánar, allt sé betra í útlöndum, ekki sé því um annað að ræða en ganga í Evrópusambandið eða gera Ísland að útnárafylki í Noregi.“

Framhald pistils Andríkis má lesa hér.

„A, fangi í fangelsinu Litla-Hrauni, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir framkomu X, starfsmanns fangelsisins, í sinn garð og viðbrögðum stjórnvalda við kvörtunum hans vegna þeirrar framkomu. Af gögnum málsins varð ráðið að X hefði sagt A vera „helvítis“ eða „andskotans“ „asna“. Jafnframt hefði því fylgt að A ætti að „snauta áfram“ eða „snáfa sér í burtu“. Í samtali milli þeirra, skömmu eftir að A leitaði til forstöðumanns fangelsisins vegna málsins, endurtók X ummæli sín með óbeinum hætti og þá í viðurvist annars fanga,“ þannig hefst 22 bls. (7930 orða) langt álit umboðsmanns alþingis vegna kvörtunar fangans A.

Í lok álitsins segir:

„Í þessu máli leitaði fangi til yfirstjórnar fangelsisins Litla-Hrauni, fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins og kvartaði m.a. yfir því að [starfsmaður] við fangelsið hefði í samtali þeirra sagt hann vera „asna“ en aðilum ber ekki saman um hvort með hafi fylgt orðið „helvítis“ eða „andskotans“. Með fylgdi líka að fanginn ætti að „snauta áfram“ eða „snáfa sér í burtu“. Ekki verður séð að í umfjöllun framangreindra yfirvalda, að því leyti sem hún beindist að A, hafi birst skýr afstaða til þess hvort háttsemi [starfsmannsins] eða ummæli hans hefðu verið í samræmi við þær lagareglur og starfshætti sem starfsmanni fangelsisins hefði borið að fylgja.“

Umboðsmaður telur stjórnsýsluhætti ekki hafa verið nægilega vandaða og vill að yfirvöldin taki málið upp að nýju.