15.9.2016 18:30

Fimmtudagur 15. 09. 16

Í gær ræddi ég við Njál Trausta Friðbertsson, bæjarfulltrúa og flugumferðarstjóra á Akureyri, í þætti mínum á ÍNN. Hér má sjá þáttinn.

Við ræddum meðal annars baráttuna fyrir að hafa 100% öryggi fyrir sjúkraflug á Reykjavíkurfkugvelli. Njáll hefur alla tölfræði í tengslum við þau mál á hreinu. Að hlusta á rök hans vekur undrun um að ákveðið hafi verið að loka neyðarbrautinni. Það er í raun með öllu óskiljanlegt að dómar hafi fallið á þann veg þegar til þess er litið að 100% öryggi í flugi til vallarins er hluti af heilbrigðiskerfinu sem hér er. Kerfið er reist á mikilli sérhæfingu á einu sjúkrahúsi sem taki við sjúklingum af landinu öllu. Nú hefur mikilvægur liður í því meistaraverki verið eyðilagður með tilheyrandi öryggisleysi.

Þá var ekki síður fróðlegt að heyra hvað Njáll sagði um þróun ferðamála og þó einkum flugmála. Hér skal það ekki rakið því að þetta allt má sjá og heyra í þættinum.

Í morgun klukkan 07.30 hóf ég að nýju að leiða hugleiðslu í miðstöð hugar og heilsu, Tveimur heimum, Suðurhlíð 35. Er þetta í boði á þessum tíma tvo morgna í viku, þriðjudaga og fimmtudaga. Staðurinn er friðsæll og aðstaða til hugleiðslu góð. Á vefsíðunni Stundinni birtist einmitt í dag vönduð grein eftir Braga Pál Sigurðarson um að vísindin staðfesti ávinning af hugleiðslu sjá hér.

Þetta er annar vetur minn með hugleiðslu á þessum stað. Hugleiðslan sjálf tekur 27 mínútur og er reist á qi gong aðferð. Kosturinn við tímasetninguna er meðal annars að morgun-umferðarþunginn er ekki orðinn yfirþyrmandi, hvorki þegar komið er eða farið úr Suðurhlíðina klukkan 08.00. Þeir sem hafa áhuga á kynnast þessu nánar geta haft samband við mig bjorn@bjorn.is

 Ótrúlega mikil breyting á afstöðu til hugleiðslu hefur orðið á almennum vettvangi undanfarin ár. Í grein Braga Páls er athygli beint að víðtækum læknisfræðislegum rannsóknum á gildi hugleiðslu. Tvö erlend orð eru notuð um hugleiðslu meditation og mindfulness. Síðara orðið má rekja til læknisfæðilegu rannsóknanna og hefur það verið íslenskað með orðunum gjörhygli eða núvitund. Finnst mér fyrra orðið betra.

Í stuttu máli má segja að hugleiðsla snúist um að brjóta ekki heilann með ofurþyngd hugsana heldur láta hugsanir líða um hann eins og ský á bláum himni. Þetta gerum við með því að leiða hugann að önduninni.