Laugardagur 24. 09. 16
Því var haldið fram hér fyrir nokkru að tilkynningu Sveinbjörns, fyrrv. aðstoðarmanns Guðna Ágústssonar, um formannsframboð í Framsóknarflokknum mætti líkja við það sem gerðist í Bretlandi: einhver ólíklegur til að ná kjöri byði sig fram til að ryðja brautina fyrir raunverulegan andstæðing sitjandi formanns.
Í gær, 23. september, skýrði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, frá því að hann ætlaði að bjóða sig fram til formennsku gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á flokksþinginu eftir viku.
Þingflokkur framsóknarmanna kom saman til aukafundar í gær til að ræða stöðu mála í flokknum. Þetta er sami þingflokkurinn og tilkynnti Sigmundi Davíð 5. apríl 2016 að hann vildi hann ekki lengur sem forsætisráðherra. Þá hafði Sigmundur Davíð farið hroðalega illa út úr sjónvarpsþætti þar sem hann var leikinn grátt af illviljuðum spyrlum. Í gær var látið að því liggja að þingflokkur framsóknarmanna hefði komið saman vegna þess hve illa legðist í þingmenn að sjá Sigmund Davíð í hópi 12 flokksleiðtoga í tveggja tíma þætti í ríkissjónvarpinu.
Ég lagði ekki á mig að horfa á þennan kynningarþátt sjónvarpsins, hef aðeins séð glefsur úr honum og lesið orðaskipti. Ég lét þáttinn sigla sína leið meðal annars vegna aðferðar spyrlanna. Þeir láta eigin fordóma í garð svarenda ráða ferðinni sem skapar neikvætt og dapurlegt sjónvarpsefni og auk þess leiðinlegt. Raunar er þáttur með 12 svarendum sem vilja síst af öllu að samhljómur sé á milli þeirra dæmdur til að mistakast.
Auðvitað er ekki unnt að kenna óvinveittum sjónvarpsmönnum um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stendur höllum fæti innan Framsóknarflokksins. Þar hefur eitthvað meira gerst en frá hefur verið skýrt. Frá því að þingflokkurinn hafnaði honum sem forsætisráðherra hafa forráðamenn flokksins þar til fyrir skömmu keppst við að lýsa yfir stuðningi við hann sem formann. Líklega er það hluti af trúnaðarbrestinum milli Framsóknarflokksins og kjósenda að menn skynja að ekki er allt sem sýnist á æðstu stöðum í flokknum.
Nú þegar opinber formannsátök eru hafin í Framsóknarflokknum milli forsætisráðherra flokksins og flokksformannsins er óhjákvæmilegt að spilin verði lögð á borðið og upplýst um undirrót átkanna. Árið 1991 bauð Davíð Oddsson, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sig fram gegn Þorsteini Pálssyni, sitjandi formanni, af því að hann hafði einangrast og glutrað niður trausti innan flokksins og utan. Forystumenn annarra flokka hæddust að honum.