12.9.2016 12:15

Mánudagur 12. 09. 16

Hillary Clinton (68 ára), forsetaframbjóðandi demókrata, er sögð með lungnabólgu eftir að öryggisverðir leiddu hana máttvana frá athöfn í New York sunnudaginn 11. september þar sem minnst var árásarinnar á borgina fyrir 15 árum. Í fyrstu var sagt að Hillary hefði fengið svimakast í 27 stiga hita og sól. Þá beindist athygli að hóstakasti sem hún fékk í miðri ræðu mánudaginn 5. september. Það var þá skýrt sem ofnæmishósti. Um sex klukkustundum eftir að hún var leidd inn í bifreiðina í New York sendi læknir Hillary frá sér tilkynningu um að hún væri með lungnabólgu, hún hefði verið greind föstudaginn 9. september og fengi hún lyf gegn henni. 

Bandarískir fjölmiðlamenn eru reiðir Hillary fyrir að hafa ekki efnt til blaðamannafundar í meira en 300 daga og hafa sakað hana um of mikla leyndarhyggju. Nú magnast frásagnir þeirra um þennan neikvæða þátt í kosningabaráttu hennar, höfuðáhersla sé lögð á að leyna almenning mikilvægum málum sem snerta frambjóðandann, þar á meðal heilsu Hillary.

Fyrstu viðbrögð við þessum fréttum eru á þann veg að um alvarlegt áfall fyrir Hillary sé að ræða tæpum tveimur mánuðum fyrir kjördag, 8. nóvember 2016. Áhrifin ráðast þó að lokum af því hve fljótt hún nær sér á strik og tekst að ýta veikindum aftur fyrir sig.

Fyrstu viðbrögð við veikri stöðu kvenna í prófkjörinu laugardaginn 10. september hafa verið hörðust innan Sjálfstæðisflokksins. Það er ekkert nýmæli þegar hlutur kvenna að loknu prófkjöri er til umræðu. Flestir taka þátt í prófkjörum í Sjálfstæðisflokknum. Hann skiptir mestu meðal íslenskra stjórnmálaflokka. Prófkjör hafa lengst sett mestan svip á ákvarðanir innan flokksins um framboðslista, ekki síst í Reykjavík. Þar hefur almennt fylgi hans þó minnkað jafnt og þétt. Eru prófkjör besta leiðin til að velja sigurstranglegan framboðslista? Þetta er spurningin sem menn verða að ræða. Það er nærtækara en að hafa prófkjör og ætla síðan ekki að virða niðurstöðu þess af því að þrýstihópar beita sér gegn henni.

Í Samfylkingunni hefur verið leitast við að slá á neikvæðar umræður um það hvernig vilji kjósenda birtist í prófkjörum með því að setja kvótareglur í þágu kynja og aldurshópa. Þetta varð til dæmis til þess að velta Margréti Tryggvadóttur, fyrrv. Þingmanni Hreyfingarinnar og samstarfskonu Birgittu, niður listann hjá Samfylkingunni í sv-kjördæmi, Margréti til lítillar ánægju.