26.9.2016 15:00

Mánudagur 26. 09. 16

Morgunblaðið birtir í dag forsíðufrétt um að rússneskar sprengjuþotur á leið suður N-Atlantshaf hafi án allra tilkynninga eða ratsjármerkja flogið nálægt og undir flugvél Icelandair á leið frá Keflavík til Stokkhólms fimmtudaginn 22. september. Líklegt er að um 200 manns hafi verið um borð í íslensku vélinni en árekstrarvarar í Icelandair-vélinni duga ekki þegar í nánd er vél sem sendir ekki frá sér nein viðvörunarmerki.

Á mbl.is er mánudaginn 26. september birt samtal við Alexeij Shadiskij, ráðunaut í rússneska sendiráðinu í Reykjavík. Hann segir rússnesku herþoturnar hafa virt alþjóðareglur en fréttir af atvikinu séu „skiljanlegar sem yfirskyn til að opna herstöð aftur í Keflavík. Verið sé að vekja upp gamla Rússagrýlu“ eins og segir á mbl.is.

Shadiskij segist hafa rætt við flugstjóra íslensku vélarinnar eftir hádegisfund Varðbergs föstudaginn 23. september og tekur sér fyrir hendur á mbl.is að rengja orð flugstjórans um þá hættu sem af flugi Rússanna hafi stafað. 

Shadiskij stendur gjarnan upp á Varbergsfundum og flytur boðskap rússneskra stjórnvalda. Oft má þar heyra svipað sambland af skætingi og útúrsnúningi og birtist á mbl.is. Í því tilviki sem hér um ræðir bætir hann gráu ofan á svart og sakar flugstjórann um að fara með rangt mál.

Eitt er að rússneskir herflugmenn fari að fyrirmælum yfirboðara sinna um að ögra ríkjum við N-Atlantshaf með flugi sínu. Annað að sendiráðsmaður sem dvelst hér til að stuðla að góðu sambandi við gistiríki sitt komi fram á þann veg sem birtist á mbl.is í dag. Veki einhver upp Rússagrýlu vegna þessa atviks er það sjálfur herra sendiráðunauturinn.

Alexeij Shadiskij er að vísu ekki annað en handbendi yfirboðara sinna. Þeir standa nú í ströngu við að bera af sér að sprengjum hafi verið varpað úr rússneskum herþotum á lestir með matvæli og hjúkrunargögn við Aleppo. Aðferð Shadiskíjs er í sama anda; að saka alla sem benda á óverjandi framferði Rússa um lygar.