14.9.2016 12:15

Miðvikudagur 14. 09. 16

Evrópusambandið glímir að minnsta kosti að hluta við tilvistarkreppu, sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í upphafi stefnuræðu sinnar á ESB-þinginu miðvikudaginn 14. september. Á þeim mörgu árum sem hann hefði fylgst með og tekið þátt í starfi sambandsins hefði hann aldrei orðið vitni að svo lítilli samstöðu aðildarríkjanna eða svo litlum vilja þeirra til að vinna saman.

Hann hefði aldrei fyrr heyrt jafnmarga leiðtoga einstakra ríkja aðeins ræða um viðfangsefni sín á heimavelli og nefna aðeins Evrópu í framhjáhlaupi ef þeir myndu þá yfirleitt eftir henni.

Aldrei fyrr hefði hann séð fulltrúa stofnana ESB setja allt önnur mál á oddinn en ríkisstjórnir aðildarríkjanna, ef tillögunum væri ekki beinlínis beint gegn vilja ríkisstjórnanna og þjóðþinganna. Það væri engu líkara en ekki ættu sér stað nein skoðanaskipti milli ráðamanna ESB annars vegar og í höfuðborgunum hins vegar.

Aldrei fyrr hefði hann séð ríkisstjórnir einstakra landa standa svo höllum fæti andspænis lýðskrumurum og lamaðar af ótta við að taka áhættu vegna næstu kosninga.

Aldrei fyrr hefði hann kynnst jafnmiklu sundurlyndi og svo lítilli samheldni innan sambandsins.

Valið væri skýrt, ætti að gefast upp vegna vonbrigðanna, ætti að leggast í sameiginlegt þunglyndi, ætti að horfa á sambandið leysast upp fyrir framan nefið á sér? Eða ætti að snúa vörn í sókn, taka sig saman í andlitinu, bretta upp ermar og leggja harðar að sér? „Er ekki runninn upp sá tími þegar Evrópa þarfnast ákveðnari forystu en nokkru sinni í stað þess að stjórnmálamenn stökkvi frá borði?“ spurði Juncker og boðaði síðan stefnu sína í löngu máli.

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi og ESB-þingmaður, sagði eftir ræðuna að hún hefði verið „bragðlaus og léleg“ hún hefði helst verið eins og „líkræða yfir ESB“. Með Brexit hefði bannhelgin innan ESB verið rofin, Brexit hefði sýnt að yfirgefa mætti ESB og bæta þannig stöðu sína. Yrði hún kjörin forseti Frakklands árið 2017 myndi hún leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um Frexit.

Við yfirlýsingar Le Pen fer hrollur um alla keppinauta hennar í Frakklandi. Þeir velta fyrir sér hve langt þeir þurfa að ganga til móts við skoðanir hennar til að ná nægri hylli kjósenda.

Hér er nýr stjórnmálaflokkur, Viðreisn, sem er orðinn til í von um að koma Íslandi í ESB. Undrar nokkurn að hann feli höfuðstefnumál sitt?