3.9.2016 15:00

Laugardagur 03. 09. 16

Fundur fólksins er haldinn núna í fyrsta sinn hér á landi að norrænni fyrirmynd. Fer hann fram í Norræna húsinu. Föstudaginn 2. september komu fulltrúar stjórnmálaflokkanna til samtals í beinni útsending. Arnar Páll Hauksson, fréttamaður á ríkisútvarpinu, raðaði þátttakendum í viðræðunum við hljóðnema og spurði svo heyrðist í útsendingunni: „Hvar ætlið þið að láta þennan feita vera?“ Hann fékk ekki svar. Nokkru síðar segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG: „Framsókn, er enginn úr Framsókn?“ Arnar Páll svarar: „Hann, ég segi hvar eigum við að koma honum fyrir, þessum feita.“ Fréttamaðurinn átti sem sagt við Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra og fulltrúa Framsóknarflokksns.

Framsóknarmenn og fleiri tóku þessum ummælum fréttamannsins illa. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði til dæmis á Facebook: „Fitufordómar á RÚV. Þeir velja sér hópana til að ráðast á.“

Egill Helgason, álitsgjafi og þáttagerðarmaður á ríkisúvarpinu, segir á Facebook: „ ég varð fyrir fitufordómum frá Arnari Páli í mötuneytinu um daginn“ og telur það sanna að fleiri en framsóknarmenn sæti þessum fordómum, þeir beinist meira að segja að starfsmönnum ríkisútvarpsins eins og sér.

Arnar Páll hringdi í Sigurð Inga forsætisráðherra og bað hann afsökunar.

Er þessu fitufordómamáli Arnars Páls þar með lokið? Velta má fyrir sér viðbrögðunum ef stjórnmálamanni hefði orðið svona á í messunni. Hann hefði sagt eitthvað fordómafullt opinberlega við skyldustörf sín. Kannske hefðu umsjónarmenn Spegilsins á fréttastofu ríkisútvarpsins talið ástæðu til að kanna hvað gerðist lentu stjórnmálamenn í slíkum vandræðum erlendis?

Fordómafull ummæli Arnars Páls á Fundi fólksins verða enn andkannalegri fyrir þá sök að viðburðirnir í Norræna húsinu vekja einna mesta almenna athygli vegna svonefndar Stoltgöngu laugardaginn 3. september. Gengið var frá Austurvelli að Norræna húsinu. Slagorðin í göngunni voru: sterk, stolt og sýnileg. Í kynningu á göngunni sagði einnig: Í Stoltgöngunni göngum við saman hönd í hönd og berum höfuðið hátt. Tilgangur göngunnar var að vekja athygli á tilveru fólks með þroskahömlun í fjölbreyttu samfélagi nútímans.

Hliðarfréttir af nýlegum Ólympíuleikum voru meðal annars um örlög fréttamanna sem urðu sér til skammar í tengslum við leikana og hvernig yfirmenn þeirra tóku á málinu. Hvað gerir útvarpsstjóri í máli Arnars Páls? Skyldi verða leitað eftir svari við því í Speglinum?