10.9.2016 13:30

Laugardagur 10. 09. 16

Á morgun, sunnudag 11. september kl. 14.30, verða tónleikar í Hlöðunni hjá okkur á Kvoslæk í Fljótshlíð (10 km frá Hvolsvelli). Anna Málfríður Sigurðardóttir píanóleikari flytur dagskrá með verkum eftir Mozart og Liszt og segir frá tónskáldunum og verkunum. Boðið er upp á kaffi í hléinu. Miðaverð er 2000 kr. og ekki tekin greiðslukort.

Við höfum nokkrum sinnum efnt til tónleika í Hlöðunni hjá okkur. Þar er hátt undir loft og hljómburður góður. Hlaðan er nákvæm eftirgerð hlöðunnar sem þarna stóð þar til útihúsin fuku í óveðri fyrir nokkrum árum. Áður en húsin fuku hafði Sigurður K. Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, teiknað þau og notuðum við teikningar hans við endurgerðina. Öll hlutföll eru eins og í gömlu húsunum en við hækkuðum þau um 50 cm. Ég veit ekki hvort annars staðar í landinu er að finna jafnnákvæma endurgerð af útihúsum eins og þessum en Óskar í Krappa og samstarfsmenn hans á Hvolsvelli reistu húsin á árunum 2007 og 2008.

Enn skýrist myndin í gegnum blekkingarvefinn sem ofinn hefur verið til fela stjórnarhætti Birgittu Jónsdóttur meðal Pírata. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, var í þættinum Í vikulokin á rás 1 að morgni laugardags 10. september. Eftir henni var haft á mbl.is að ekki sé unnt að skilja Birgittu Jónsdóttur rétt án þess að styðjast við ráð frá vinnustaðasálfræðingi.

Ásta Guðrún viðurkenndi að prófkjör Pírata í nv-kjördæmi hefði verið klúður, fara yrði ítarlegra yfir niðurstöðuna og læra af henni. Þá segir á mbl.is:

„Þegar Ásta var spurð hvort Birgitta sjálf væri rót samskiptavandans, sagði hún að því mætti velta fyrir sér. „Ég á alltaf í mjög góðum samskiptum við Birgittu en oft er það þannig með fólk sem er mjög skapandi og með hugsun út á við að það segir svolítið margt. Maður þarf stundum að spyrja: „Hvað ertu að meina með þessu?“,“ sagði hún. „Mín samskipti við Birgittu hafa nánast að öllu leyti verið mjög jákvæð, ekki síst eftir að við fengum vinnustaðasálfræðing við að búa til ferla til að gera greinarmun á upplifun okkar á orðum fólks og því sem manneskjan var virkilega að segja.“

Á þennan veg vill Ásta Guðrún reyna að skapa Birgittu svigrúm gagnvart fullyrðingum að minnsta kosti þriggja nafngreindra pírata í nv-kjördæmi sem telja Birgittu gafa viljað ráða niðurstöðu prófkjörsins þar.