9.9.2016 15:30

Föstudagur 09. 09. 16

Samfylkingarfólk í Reykjavík, norðvestur- og suðvesturkjördæmum gengur til forvals á fólki á framboðslista dagana 8. til 10. september. Einn þeirra sem keppir um fyrsta sætið í Reykjavík er Össur Skarphéðinsson. Hann situr, að minnsta kosti óbeint, undir alvarlegri ásökun á vefsíðunni visir.is föstudaginn 9. september.

Helga Vala Helgadóttir lögmaður fullyrðir við Jakob Bjarnar, blaðamann á Vísi, að fyrir fjórum árum hafi fólki af víetnömskum uppruna verið lofað ríkisborgararétti gegn því að kjósa Össur Skarphéðinsson, þá utanríkisráðherra, í 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar. „Helga Vala ítrekar að hún viti ekki til þess að Össur sjálfur hafi staðið fyrir þessu, heldur einhver sem var mjög í mun að Össur kæmi vel út úr því prófkjöri,“ segir á vefsíðunni.

Í Facebookskilaboðum til Vísis hafnar Össur þessum ásökunum, honum þyki þær sérkennilegar og sannarlega hafi hann sjálfur aldrei komið nálægt neinum slíkum æfingum. Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og Viðreisnarmaður, blandar sér í umræður um málið á Facebook. Vísir birtir þessi orðaskipti:

„Pawel Bartoszek: Hefur þú það staðfest að frambjóðandi hafi lofað kjósanda persónulega ríkisborgararétti í skiptum fyrir stuðning í prófkjöri?

Helga Vala Helgadóttir: Já

Pawel Bartoszek: Það er lögreglumál.

Helga Vala Helgadóttir: Já.“

Vísir spurði Helgu Völu nánar út í þessar ásakanir, sem hún segir vissulega alvarlegar. Hún hafi sjálf rætt við Víetnamana með aðstoð túlks. Hún segir: 

„Ég varð vitni að þessu, þá var það þannig að ég sá á nýskráningum [í kjörskrá í prófkjörinu], sem þarna voru, að þar voru óvenju mörg nöfn sem mátti rekja til Víetnama. Ég þekkti nöfnin. Vissi upprunann. Ég fékk mér til aðstoðar túlk á víetnömsku og fékk hana til að hringja fyrir mig nokkur símtöl og þá var þetta staðfest.“

En, hvaða frambjóðandi er þetta sem fólk átti að kjósa?spyr Jakob Bjarnar blaðamaður á Vísi.

„Þetta fólk sem ég lét hringja í átti allt að kjósa Össur Skarphéðinsson. Og þá var hann utanríkisráðherra. Það átti að kjósa hann í 1. sæti,“ svarar Helga Vala en segist ekki væna Össur um að hafa lofað þessu.

Hvers vegna þykir þetta fréttnæmt núna? Til að sýna Össur í undarlegu ljósi. Þess er ekki getið hvort Víetnamarnir hafi fengið ríkisborgararétt eftir almennri leið eða með lögum frá alþingi.