13.9.2016 14:45

Þriðjudagur 13. 09. 15

Öðru hverju sendi ég efni inn á Facebook til að kanna viðbrögð þar við einhverju sem er ofarlega á baugi. Þegar fréttist að fyrrverandi aðstoðarmaður Guðna Ágústssonar hefði boðið sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG) vakti ég máls á því að í breskum stjórnmálaflokkum brytu menn ísinn gagnvart sitjandi flokksleiðtoga með svipaðri aðferð. Í dag hefur Guðni svo sjálfur gengið fram fyrir skjöldu og lýst þeirri skoðun að SDG verði að víkja úr formennskunni eigi flokkurinn að ná sér á strik. Guðni er ekki í framboði en formannsslagurinn er kominn á fullt skrið.

Eftir að SDG upplýsti að brotist hefði verið inn í tölvuna hans sagði ég á FB að þetta minnti á Jón Baldvin og Árna Pál um árið þegar þeir sögðu síma sína hafa verið hleraða við störf þeirra í utanríkisráðuneytinu. Lögregla rannsakaði mál þeirra félaga án niðurstöðu en SDG hefur ekki kært tölvubrotið til lögreglu. Að ég skyldi vekja máls á þessu vakti mikla reiði huldumanns úr liði SDG sem hóf reiðilestur um að sjálfstæðismenn ynnu að því að bola SDG frá völdum í Framsóknarflokknum. Það sljákkaði í þessum ágæta manni í morgun eftir að hann hafði kynnt sér ummæli Guðna. Áður hafði hann hins vegar meðal annars bent mér á að lesa Morgunblaðið, það gæti ef til vill leitt mig á „rétta braut“ gagnvart SDG.

Í leiðara blaðsins í morgun en fjallað um kosti og galla prófkjara og hefst hann á þessum orðum:

„Kunnugleg umræða er hafin eftir prófkjör flokka og framboða. Ríkisútvarpið einbeitir sér að Sjálfstæðisflokknum og gengur í þeim efnum ekki gott til fremur en endranær. [...] Er undrunarefni að liðsmenn þessarar ríkisfréttastofu skynji aldrei neitt skrítið í þessari framgöngu sinni.“

Undir þessi orð skal tekið. Fréttaflutningurinn af prófkjörum Sjálfstæðismanna miðar nú eins og stundum áður að því að efla sem mesta reiði vegna árangursleysis kvenna. Hvað sem því líður er óþarft að yfirfæra það á allar konur í stað þess að vega og meta stöðu hverrar þeirrar fyrir sig.

Að efna til prófkjara til þess eins að gera niðurstöðu þeirra að engu vegna þrýstihópa sem myndast eftir kjördag er fráleitt. Annaðhvort láta menn slag standa eða velja aðra leið til að ákveða framboð – til dæmis að tísta um það á Twitter eins og Viðreisn gerir.