11.9.2016 12:15

Sunnudagur 11. 09. 16

Vali á framboðslista er lokið innan Sjálfstæðisflokksins og vafalaust hjá fleiri flokkum þótt ég hafi ekki vitneskju um þá alla eða hve margir flokkar ætla að bjóða fram í kosningunum 29. október. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar ekki enn raðað á lista sína.

Þótt oft hafi mun fleiri tekið þátt í prófkjörum sjálfstæðismanna kemst enginn flokkur með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hælana þegar til þátttökunnar er litið.

Vandræðagangurinn við val á lista hefur verið mestur hjá Pírötum. Þeir hafa greinilega ekki neina burði til að standa að slíkum ákvörðunum á opinn og skipulegan hátt auk þess sem innra kerfi þeirra er reist á leyndarhyggju þótt þeir láti út á við eins og starf þeirra sé opnara og gagnsæjara en annarra stjórnmálaflokka.

Reynslan af prófkjörum er mikil, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Eftir að þeim lýkur er fastur liður í umræðunum að þessum eða hinum hópnum vegni ekki nógu vel. Að þessu sinni er augljóst að konur fá ekki þann framgang sem þær vildu og skynsamlegt væri til að skapa sem best jafnvægi milli kynjanna. Er þetta ekki nýmæli en jafndapurlegt engu að síður.  Að laga þessa vankanta eftir að niðurstaða prófkjara er kynnt reynist erfitt. Vissulega hugsa margir um nauðsyn kynjajafnræðis við ráðstöfun á atkvæði sínu í prófkjöri þótt úrslitin beri það ekki alltaf með sér.

Miðstjórn Framsóknarflokksins kom saman á Akureyri í gær, 10. september. Þar var ákveðið að boða til flokksþings 1. og 2. október. Af ákvörðuninni sýnir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) flokksformaður og hans menn urðu undir innan flokksins. Krafan um flokksþing fyrir kosningar hefur tengst kröfu um að SDG víki úr formennskunni. Hann hefur gripið til þess ráðs að reyna að draga allar ákvarðanir um boðun þingsins á langinn. Kjördæmisþing tóku fyrst fram fyrir hendur hans og nú miðstjórninn.

Eftir miðstjórnarfundinn talar Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, öðru vísi en áður um flokksformennskuna. Hann segir ekki lengur það eitt að hann styðji formanninn heldur séu örlögin „algjörlega í höndum flokksmanna“. Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði laugardaginn 10. september að á miðstjórnarfundinum hefði verið skorað á Sigurð Inga að gefa kost á sér í formannsembættið. Sigurður Ingi svaraði ekki afdráttarlaust hvort hann treysti Sigmundi Davíð lengur sem formanni en staðfesti að á sig hefði verið skorað.