19.10.2015 16:00

Mánudagur 19. 10. 15

Áhorf á fréttatíma Stöðvar 2 og ríkissjónvarpsins er nú nánast hið sama. Um 20% á aldrinum 12 til 80 ára horfa á fréttir á hvorri stöð.  Þetta sýna mælingar Gallup. Áhorf ríkisfréttanna hefur minnkað jafnt og þétt undanfarin ár. Í september 2008 horfðu að meðaltali 27,8 prósent landsmanna í aldurshópnum 12 til 80 ára á meðalmínútu af fréttum ríkissjónvarpsins. Í ár er þessi tala 20.4%. Áhorfið hefur minnkað um rúm 7 prósentustig á sjö árum. Í september 2008 horfðu 21,9% landsmanna í aldurshópnum 12 til 80 ára á fréttatíma Stöðvar 2. Í ár er  þessi tala 20,04%. Uppsafnað áhorf á fréttir ríkisútvarpsins er nú 25,46% að meðaltali en á fréttir Stöðvar 2 er það 24,8% Frá þessu er sagt á Kjarnanum í dag, mánudag 19. október.

Spurning er hvort það sé sami fimmtungur landsmanna sem hefur áhuga á sjónvarpsfréttum en 80% láti þær almennt fram hjá sér fara.

Taki ég mið af eigin áhorfi mælist það hjá hvorugri stöðinni, það heyrir til undantekninga að ég horfi á innlendar sjónvarpsfréttir. Efnisvalið og efnistökin ráða þar mestu. Helst fylgist ég með ríkisfréttunum en slekk æ oftar á viðtækinu. Raunverulegar fréttir víkja í vaxandi mæli fyrir getgátum um hvað kunni að gerast. Þetta eru ekki fréttir eða skýringar á einhverju sem hefur gerst heldur frásagnir í viðtengingarhætti af einhverju sem kann að verða.  Þetta er sérkennileg þróun sem skýrist ef til vill af því að fréttamönnum finnst auðveldara að segja frá einhverju sem kannski gerist en að brjóta það til mergjar sem hefur gerst.

Einfalda skýringin á þessum litla áhuga á sjónvarpsfréttum er að leiðirnar til fréttaöflunar hafa tekið stakkaskiptum með nýrri tækni. Þessi skýring er að sjálfsögðu rétt. Aðgengi að erlendum fréttamiðlum er meira en nokkru sinni. Samanburður á efnistökum fréttamanna þar og hér á landi er innlendu stöðvunum mjög í óhag svo að ekki sé minnst á tæknilega þáttinn.

Hér á landi hafa fréttastöðvarnar flutt sig í mjög ríkum mæli inn á svið félags- og neytendamála með kröfugerð á hendur opinberum aðilum. Ríkissjónvarpið leitast við að lífga upp á fréttatímann með beinum útsendingum þótt viðfangsefnið gefi alls ekki tilefni til slíkra útsendinga sem dregur því úr gildi þeirra. Ekkert af þessu kallar á nýja áhorfendur eins og tölurnar sýna.