4.10.2015 22:10

Sunnudagur 04. 10. 15

Augljóst er af því sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir í viðtalinu við mig á ÍNN að hún vill að dómsmálaráðuneytið verði endurreist. Hún áttar sig á mikilvægi þess að ráðuneyti þriðju stoðar ríkisvaldsins sé sjálfstæð heild innan stjórnarráðsins. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sömu skoðunar og Ólöf.

Ekkert gerist hins vegar í málinu nema Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra taki af skarið um það. Er hann andvígur þessari nauðsynlegu breytingu?

Í kvöld var sérstakur þáttur í sjónvarpsstöðinni BBC World um Ragnar Axelsson, RAX, ljósmyndara á Morgunblaðinu. Var sagt frá störfum hans og sýndar fjölmargar ljósmyndir teknar af honum. Þátturinn sýndi enn hve myndir RAX hafa vakið mikla alþjóðlega athygli.