24.10.2015 19:00

Laugardagur 24. 10. 15

Hið óvænta á landsfundi okkar sjálfstæðismanna í dag var að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, laganemi og fyrrverandi formaður Heimdallar, bauð sig fram sem ritari flokksins. Hún flutti mjög öfluga framboðsræðu á fundinum og hvatti landsfundarfulltrúa til að sýna stuðning sinn við aukin áhrif ungs fólks í verki með því að kjósa sig.

Flokksráð sjálfstæðismanna ákvað milli landsfunda að breyta embætti annars varaformanns í embætti ritara og var Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður kjörinn í hið nýja embætti á flokksráðsfundi. Það hefur því aldrei verið kosið til embættis ritara á landsfundi. Verður það gert í fyrsta sinn á morgun.

Bjarni Benediktsson er eini frambjóðandi til formanns og Ólöf Nordal til varaformanns. Allt þar til kom að framboðsræðu ritara hafði farið hljótt um framboð Áslaugar Örnu en framganga hennar er í anda hinnar miklu sóknar sem einkennt hefur störf ungra sjálfstæðismanna á landsfundinum.

Það kom í minn hlut að hafa framsögu fyrir tillögu utanríkismálanefndar flokksins. Mikil og góð sátt náðist um ályktunina í starfshópi landsfundarins um utanríkismál. Þó var flutt breytingartillaga á fundinum sjálfum sem endurspeglaði viðhorf þeirra sem telja að ekki hafi nægilega tryggilega verið gengið frá afturköllun ESB-umsóknarinnar.

Breytingartillagan var kolfelld og meðal þeirra sem töluðu gegn henni var Bjarni Benediktsson. Taldi hann engan vafa ríkja um afturköllunina, forsætisráðherra og utanríkisráðherra hefðu kynnt hana fyrir ráðamönnum ESB í Brussel sl. sumar. Tillagan sem var samþykkt um þetta mál er á þennan veg:

„Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að hagmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins og því að aðildarviðræðum við ESB hafi verið hætt. Mikilvægt er að tryggt verði að aðildarviðræður verði ekki teknar upp að nýju án þess að þjóðin verði spurð hvort hún óski eftir aðild að Evrópusambandinu.“

Athyglisvert er að enginn mælti fyrir efni breytingartillögunnar á fundinum, hún var aðeins lögð fram skriflega. Hinn samþykkti texti tekur mið af því sem landsfundur samþykkti árið 2013 og staðfestir að stefna flokksins sem þá var mótuð hefur náð fram að ganga.

Töluvert var rætt um hvort fella ætti niður orðin „við Hringbraut“ í ályktun um nýjan Landspítala. Meirihluti fundarmanna hafnaði niðurfellingu þessara orða.

 ps. Að kvöldi laugardags dró Guðlaugur Þór sig í hlé.