14.10.2015 18:40

Miðvikudagur 14. 10. 15

Í dag ræddi ég við Höskuld Þráinsson prófessor í þætti mínum á ÍNN sem verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.

Fyrir rúmum tveimur áratugum tókst að sannfæra ríkisstjórnina og alla alþingismenn nema tvo um að best væri að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og ganga í eitthvað sem hét og heitir kannski enn NAMMCO, þá mætti hefja löglegar hvalveiðar. Þetta reyndist hin argasta vitleysa og var gengið í hvalveiðiráðið að nýju til að hefja löglegar veiðar á hvölum.

Þessi illa ígrundað hrakför kemur í hugann þegar birtast greinar um að besta leiðin til að efla borgaralegt öryggi á Íslandi sé að segja skilið við Schengen-samstarfið. Baldur Ágústsson, fyrrv. forsetaframbjóðandi, skrifar í þessa veru í Morgunblaðið í dag.

Hann nefnir samstarf íslenskrar lögreglu við Interpol sem er gott og á gömlum grunni, það kemur hins vegar alls ekki í stað fyrir hið nána samstarf sem er við Europol, Evrópulögregluna, og er reist á Schengen-aðildinni. Þá segir Baldur:

„Athyglisvert er að Bretland - sem er ekki er aðili að [Schengen-]samningnum fékk og hefur full afnot af gagnagrunninum.“

Baldur sleppir því að Bretar eru aðilar að ESB og sömdu um hluta aðild að Schengen árið 1999 og sem slíkir eiga þeir aðild að Europol. Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessa árs (2015) að leiðtogaráð ESB samþykkti aðild Breta að megingagnagrunni Schengen-samstarfsins (SISII). Að líkja stöðu Íslendinga gagnvart ESB við stöðu Breta jaðrar við tilraun til blekkingar en er vafalaust reist á vanþekkingu.

Vandinn hér á landi er ekki Schengen-aðildin heldur að lögregla hefur ekki fengið fjárhagslegt svigrúm til að nýta sér kosti henar til hlítar,

Halldór Jónsson, verkfræðingur og bloggari, er eindreginn andstæðingur Schengen-aðildarinnar. Hann segir ólíðandi að Schengen-sjónarmið mín og Halldórs heitins Ásgrímssonar séu höfð „að slíkum lögum að ekki megi ræða eða draga í efa þessa gjörð sem þeir áttu mestan þátt í að koma á“.

Ég var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem vann að Schengen-aðildinni en átti ekki beinan hlut málinu, hafði vissar efasemdir. Þær hafa horfið við kynni mín af gildi samstarfsins. Að eigna mér aðildina sannar aðeins hve yfirborðslegur þessi málatilbúnaður Halldórs Jónssonar er. Þeir Baldur ættu að finna sér verðugra baráttumál.