26.10.2015 16:35

Mánudagur 26. 10. 15

Það er næsta óskiljanlegt að stofnað sé til verkfalla á þessu stigi kjaraviðræðna samninganefnda SFR stéttarfélags, sjúkraliða og lögreglumanna. Dögum saman hefur legið fyrir að samkomulag um meginþátt deilunnar, launahækkanir. Tíminn hjá sáttasemjara ríkisins er hins vegar notaður til að ræða alls kyns útfærsluatriði sem að sjálfsögðu á að leysa án þess að slíkar viðræður um smáaletrið bitni á sjúklingum eða öðrum sem eru háðir þjónustu verkfallsmanna.

Í fjölmiðlum í dag segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR stéttarfélags, að unnið sé hörðum höndum að því að ná samningum fyrir næsta allsherjarverkfall sem skellur að óbreyttu á næsta fimmtudag. Hann deilir við ríkið um hvernig raða á niður launahækkunum en ekki hvað þær skuli verða miklar en segir í fjölmiðlum á visir.is „vonbrigði að ekki hafi náðst samkomulag um launaliðinn um helgina, líkt og stefnt hafði verið að“. 

Landsfundur VG var haldinn um helgina. Þar var tekist á um varaformann og hafði Björn Valur Gíslason varaþingmaður betur í átökum við Sóleyju Björk Stefánsdóttur, bæjarstjórnarfulltrúa VG á Akureyri. Alls greiddu 156 atkvæði. 93 atkvæði féllu í hlut Björns Vals og 50 atkvæði í hlut Sóleyjar.

Samhliða því sem landsfundarfulltrúar höfnuðu konu í þetta trúnaðarstarf samþykktu þeir hástemmda yfirlýsingu um Kvenfrelsisbyltingar. Fundurinn

[V]ill þakka öllum þeim hugrökku og sterku konum sem tekið hafa þátt í byltingum undanfarins árs með því að sýna stuðning sinn og leggja sögur sínar og reynslu á vogarskálarnar í von um réttlátara samfélag. Jafnframt vill hreyfingin viðurkenna að byltingarnar sýna að krafan um kvenfrelsi verður sífellt háværari og taka undir hana. Femínisminn gengur í gegnum endurnýjun lífdaga.

Feðraveldið leitar sífellt nýrra leiða til að viðhalda sér og úrsérgengnum gildum sínum. Hefur það nú fundið nýtt vopn, internetið, þar sem það birtist meðal annars í formi stafræns kynferðisofbeldis. Femínisminn hefur svarað þessari ógn með netbyltingum.

Vinstri græn fagna mjög hugrekkinu og samstöðunni sem myndast hefur í kjölfar byltinganna. Væntir hreyfingin þess að þessi samstaða muni einn daginn útrýma klámvæðingu, kynferðisofbeldi og kvennakúgun feðraveldisins í öllum sínum myndum. Hreyfingin mun styðja allar þær konur sem neita að láta kúga sig af feðraveldinu.

Áfram konur! Fokk feðraveldið! Lifi byltingin!“

Á vefsíðu VG kemur ekki fram hvort þetta var samþykkt áður eða eftir að „feðraveldi“ flokksins hafnaði Sóleyju Björk.