27.10.2015 17:15

Þriðjudagur 27. 10. 15

Heild­ar­sam­tök launa­fólks og at­vinnu­rek­enda á al­menn­um og op­in­ber­um vinnu­markaði skrifuðu í dag und­ir nýtt samn­ingalík­an sem ger­ir ráð fyr­ir að svig­rúm launa­breyt­inga verði skil­greint út frá sam­keppn­is­stöðu gagn­vart helstu viðskipta­lönd­um og munu samn­ing­ar við út­flutn­ings­fyr­ir­tæki móta svig­rúm til launa­breyt­ing­anna. Þá verður jöfn­un í líf­eyr­is­rétt­ind­um á al­menna og op­in­bera vinnu­markaðinum, en á móti verður op­in­ber­um starfs­mönn­um tryggð hlut­deild í launa­skriði á al­menn­um vinnu­markaði. Þá verða kjara­samn­ing­ar miðaðir við að auka kaup­mátt á grund­velli stöðugs geng­is.

Hér er um stórmerkt samkomulag að ræða sem vonandi verður til að rjúfa vítahring launahækkana, gengislækkana og verðbólgu í efnahagslífi okkar. Markmiðið er að laga lausn kjaradeilna hér að fordæmi nágrannalanda sem hafa fyrir löngu tekið upp skipulegri og árangursríkari vinnubrögð en hér hafa tíðkast. Kennarasambandið og BHM standa utan þessa samkomulags. Fyrrverandi þingmaður og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar er formaður BHM.

Í ljósi þessa samkomulags verður enn undanlegra en áður að ekki sé fallið frá verkfallsaðgerðum vegna kjaraviðræðna ríkisins við sjúkraliða, ríkisstarfsmenn og lögreglumenn.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Komið er á daginn að einhver óskaði sérstaklega eftir því að tölvupóstar yfirmanna í Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu yrðu eyðilagðir og einnig afrit slíkra pósta. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ein af ástæðum þess gjörnings hafi verið málatilbúnaður fyrir Landsdómi. Af hverju í ósköpunum er þetta mál ekki rannsakað? Hvaða menn áttu þarna í hlut, hverjir þrýstu á og hverjir tóku endanlega ákvörðun um að eyða tölvupóstunum.“

Í ljósi írafársins sem varð vegna leka á minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu vegna hælismáls Tonys Omos er sérkennilegt eigi ekki að kanna til hlítar málið sem nefnt er í leiðaranum. Þar segir einnig:

„Í lekamálinu svokallaða voru mistökin sennilega sú að „leka“ upplýsingum í stað þess að birta þær einfaldlega opinberlega. Þeir, sem upplýsingarnar snertu, háðu slag sinn við ráðuneytið og stofnanir þess opinberlega og lögfræðingar þeirra sem í hlut áttu voru með ótrúlega liðugan aðgang t.d. að fréttastofu ríkisins.

Skjólstæðingar lögfræðinganna höfðu hins vegar mörgu að leyna sem stórlega myndi veikja þeirra málstað ef upplýst yrði um.“

Undir þessi orð er tekið. Yfirvöld ættu að birta almenningi frásögn af því sem upplýst hefur verið með opinberum rannsóknum um Tony Omos og um það hvar hann dvelst nú.