28.10.2015 17:15

Miðvikudagur 28. 10. 15

Í dag ræði ég við Trausta Valsson, prófessor í skipulagsfræðum við Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Trausti lætur af störfum nú um áramótin og skrifaði hann af því tilefni bókina Mótun framtíðar. Áður hefur hann sent frá sér 13 bækur. Skoðanir Trausta eru margar ögrandi og hann dregur ekkert undan í gagnrýni sinni. Er fengur að því að hann skuli hafa tekið saman þessa frásögn af eigin lífshlaupi nú við hin formlegu starfslok.

Þátturinn verður sýndur kl. 20.00 í kvöld á rás ÍNN nr. 20 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Leiðin úr höftunum verið kynnt sjá hér  Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um stöðugleikaleið úr höftum hefur meðal annars þetta í för með sér að mati Seðlabanka Íslands:

„Hrein skuldastaða Íslands batnar verulega í kjölfar uppgjörs á grundvelli stöðugleikaskilyrða. Hreinar erlendar skuldir lækka um 3.740 ma.kr. og undirliggjandi erlend staða batnar um 360 ma.kr. beint vegna slitanna en þegar tekið er tillit til annarra þátta og vaxtar nafnvirðis landsframleiðslu er gert ráð fyrir að skuldastaðan fari úr tæplega þriðjungi af landsframleiðslu á þessu ári niður fyrir 10% í lok næsta árs. Þá er ekki búið að taka með í reikninginn lækkun skuldastöðunnar sem mun verða vegna fyrirhugaðs útboðs aflandskróna en ekki er hægt nú að segja til um hversu mikil hún verður. Jafn hagstæð skuldastaða gagnvart útlöndum hefur ekki þekkst í áratugi.“

Sé þetta rétt er árangurinn glæsilegur. Vert er að minnast þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hreyfði ekkert við höftunum – Jóhanna vildi nota þau til að komast í ESB og Steingrímur J. til að hlutast til um viðskipta- og atvinnulífið. Hve illa þau héldu á málum þjóðarinnar verður sífellt skýrara.

Í morgun sömdu ríkisstarfsmenn, sjúkraliðar og lögreglumenn til langs tíma og sögðust talsmenn þeirra hafa náð sínu fram. Samningar tókust ekki fyrr en ríkissáttasemjari hélt viðræðuaðilum á fundi hjá sér fram til klukkan 05.00.

Efnahagshorfur þjóðarinnar hafa skýrst í dag. Spekingar munu fjalla um þær og líklega sjá miklar hættur eins og venjulega. Eitt hættumerki þekki ég: Krónan hefur styrkst, flugfargjöld eru hins vegar lág til og frá landinu. Ferðamenn koma í hópum til landsins en versla minna en áður vegna hærra verðlags. Kvartanir undan verðlaginu vaxa og orðsporið versnar.