15.10.2015 17:00

Fimmtudagur 15. 10. 15

Samtal mitt á ÍNN við Höskuld Þráinsson prófessor er komið á netið og má sjá það hér. 

Þess er minnst í dag að 40 ár eru frá því að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar færði efnahagslögsöguna í 200 sjómílur. Ég var þá skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og gegndi stundum störfum sem ritari ríkisstjórnarinnar. Þá vann ég náið með embættismönnum utanríkisráðuneytisins og ævilöng vinátta skapaðist milli mín og Kenneths Easts, sendiherra Breta, sem hvarf um tíma úr landi fyrri hluta árs 1996 þegar ríkisstjórnin sleit stjórnmálasambandi við Breta.

Skömmu fyrir stjórnmálaslitin fór ég með Geir og fulltrúum stjórnarflokkanna, þingmönnunum Guðmundi H. Garðarssyni (Sjálfstæðisflokki) og Þórarni Þórarinssyni (Framsóknarflokki), til London til viðræðna við Harold Wilson, forsætisráðherra Breta. Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var einnig í London og sendi fréttir til blaðsins.

Allt gerðist þetta 20 árum áður en ég tók að færa dagbók hér á netinu, raunar áður en tölvur komu til sögunnar innan stjórnarráðsins. Má velta fyrir sér heiftinni á samfélagsmiðlunum á þessum átakatímum. Það var til dæmis fundið Geir til ámælis að hann sagðist líta hættulegt atvik á miðunum „alvarlegum augum“ var hann sakaður um að kveða ekki nógu fast að orði um ósvinnu Breta.

Von er á David Cameron, forsætisráðherra Breta, til landsins síðar í mánuðinum. Af því tilefni hefur verið sagt að hingað hafi ekki komið breskur forsætisráðherra frá því að Sir Winston Churchill sótti landið heim 12. ágúst 1941. Þetta er ekki rétt.

Hinn 25. september 1960 hafði Harold Macmillan forsætisráðherra viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og ræddi þáverandi landhelgisdeilu við Ólaf Thors forsætisráðherra. Hér má lesa um fund þeirra. 

Sunnudaginn 9. febrúar 1964 kom Sir Alec Douglas Home, forsætisráðherra Bretlands, til Keflavíkurflugvallar á leið vestur um haf „og var í fylgd með honum hið fríðasta föruneyti“ seagði á forsíðu Morgunblaðsins, þar á meðal Richard Butler, utanríkisráðherra Bretlands. Meðan ráðherrarnir stöldruðu við á Keflavíkurflugvelli, ræddu þeir við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Guðmund í. Guðmundsson utanríkisráðherra en auk þess áttu þeir stuttan fund með blaðamönnum. Ég man vel eftir þessu því að ég ók með föður mínum suður á flugvöll. Hittust ráðherrarnir í setustofu á efri hæð flugstöðvarbyggingarinnar inni á varnarsvæðinu. Um þennan atburð má lesa hér.