11.10.2015 16:00

Sunnudagur 11. 10. 15

Á vefsíðunni Kjarnanum segir í dag:

„Ólafur Ragnar segir [á Bylgjunni] að hann muni ræða það við eiginkonu sína og dætur hvort hann eigi að bjóða sig fram á ný [til forseta] og að sú ákvörðun verði kynnt í nýársávarpi hans. Ástæðan fyrir því hann ákvað að bjóða sig aftur fram árið 2012 hafi verið vegna óska fjölda fólks um að gera það. „Þá var þjóðin að heyja margar örlagaglímur á mörgum sviðum. Þessum glímum er að mörgu leyti lokið. Ég hef aldrei talið mig ómissandi og ef ég tek þá ákvörðun um að hætta vona ég að því verði sýndur fullur skilningur.““

Ólafur Ragnar styðst við allt annað bakland eftir að hafa verið forseti í tæp 20 ár en þegar hann var kjörinn. Vilji hann gleðja upphaflega stuðningsmenn sína í upphafi árs 2016 tilkynnir hann að sumarið 2016 hverfi hann frá Bessastöðum. Vilji hann gleðja þá sem stöðu að baki honum árið 2012 situr hann áfram. Ólíklegt er að nokkur „alvöru“ frambjóðandi taki við hann slaginn ákveði Ólafur Ragnar að sitja áfram.

Skynsamlegast er að sem lengst ríki friður um forsetaembættið. Líklegt er að Ólafur Ragnar hafi nú þegar skapað allan þann ófrið um embættið sem er á hans færi. Hann sitji því á friðarstóli og njóti efri áranna á Bessastöðum til 2020, velji hann þann kost.

Á visir.is er vitnað í sama samtal og sagt:

„Okkur er að takast að gera Ísland að Sviss Norðurslóða,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson forseti um mikilvægi Arctic Circle ráðstefnunnar fyrir Ísland. Með ráðstefnunni hafi tekist að gera Ísland að umræðuvettvangi um málefni Norðurslóða.

Í þessum orðum vísar Ólafur Ragnar vafalaust til World Economic Forum og hinna árlegu funda í svissneska fjallabænum Davos. Langt er í land að umræður um Norður-Íshafið skírskoti til jafnmargra þjóða og fundirnir í Davos en hingað kemur líklega breiðari hópur fólks en til Davos. Spyrja má hvort áhugi á umræðum um norðurslóðir minnki hægi á umsvifum þar eins og gerst hefur undanfarin misseri. Íslandi, aðila að NATO með varnarsamning við Bandaríkin, verður þó seint líkt við Sviss í umræðum um alþjóðastjórnmál.