1.10.2015 19:00

Fimmtudagur 01. 10. 15

Í morgun klukkan 07.30 til 08.00 hóf ég að leiða hugleiðslu hjá Tveimur heimum sjá nánar hér.  Verða hugleiðslutímarnir tvisvar í viku á þessum tíma, þriðjudögum og fimmtudögum. Þátttakan var góð. Á vefsíðu Tveggja heima er unnt að nálgast upplýsingar um starfsemina og skráningu, þar segir einnig:

„Björn Bjarnason leiðir hugleiðslu sem er reist á grunni qi gong. Læknisfræðilegar rannsóknir sýna að hvíld hugans í hugleiðslu hefur mun meiri áhrif en áður var talið.  Aðferðir við hugleiðslu eru margar, markmiðið er þó ávallt hið sama: að skapa hugarró til að njóta betur alls þess sem gert er og gerist – að átta sig á að fortíðin er liðin og verður ekki breytt en framtíðin óráðin og verður ekki stjórnað. Hjá Birni er um að ræða tæplega 30 mínútna hugleiðslutíma án annarra umbúða en kröfunnar um kyrrð og einbeitingu. Björn er formaður Aflsins, félags qi gong iðkenda. Hann er einn höfunda bókarinnar Gunnarsæfingarnar þar sem kynnast má grunnþáttum qi gong.“

Og ég segi á síðunni:

„Nú eru rúm 25 ár frá því að ég kynntist hugleiðslu á námskeiði sem ég sótti í franskri sveitarsælu. Snemma morguns áður en hitinn magnaðist sátum við í ilmi reykelsis í litlu uppgerðu útihúsi og hugleiddum undir lestri texta sem vakti jákvæðar tilfinningar. Síðar lærði ég hugleiðslu undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar, leikara og qi gong meistara. Tók ég ásamt öðrum við af honum að leiða hugleiðsluhóp hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Eftir því sem ég hef kynnst hugleiðslu meira legg ég meiri áherslu á að nálgast hana umbúðalaust í þögn innan ákveðins tímaramma. Um hugleiðslu gildir hið sama og önnur mannanna verk: æfingin skapar meistarann. Hugleiðslutímar eru til þess að þátttakendur gefi sér og huga sínum tíma og njóti hans.“

Síðdegis leit ég inn í Epal þar sem fagnað var 40 ára afmæli fyrirtækisins.