3.10.2015

Litið um öxl

Reykholt - Snorrastofa 3. október 2015


Snorrastofa 20 ára

Reykholti 3. október 2015

 

Ég varð menntamálaráðherra 23. apríl 1995. Það leið ekki einn mánuður frá því að ég var skipaður í embættið þar til að ég hélt í Reykholt. Af því tilefni skrifaði ég á vefsíðu mína hinn 20. maí 1995:

„Staða Reykholtsskóla hefur verið mjög til umræðu undanfarið vegna yfirvofandi skólastjóraskipta. Á árinu 1980 veitti menntamálaráðuneytið Ólafi Þ. Þórðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins, leyfi frá skólastjórastörfum í Reykholti, á meðan hann gegndi þingmennsku. Ólafur er ekki lengur þingmaður og sneri sér því til ráðuneytisins, sem sagðist standa við bréfið frá 1980. Þá blossuðu upp deilur, sem meðal annars snúast um starfið í Reykholtsskóla. 

Vegna málsins komu fulltrúar nemenda í Reykholti á minn fund hinn 11. maí og afhentu mér bréf, þar sem þess er farið á leit við mig, að fá Ólaf Þ. Þórðarson til að endurskoða ákvörðun sína, „ef ekki fyrir núverandi nemendur þá fyrir komandi kynslóðir“ eins og það er orðað. Hinn 13. maí kom skólanefnd Reykholtsskóla saman til fundar undir formennsku sr. Geirs Waage, sóknarprests í Reykholti. Sendi hún mér bókun af fundi sínum, þar sem lýst er þeirri skoðun, að menntamálaráðuneytið leggi mat á árangur skólastarfs í Reykholti undanfarin ár. Þá segir í bókuninni: „Vegna þeirrar stöðu, sem nú er uppi um málefni skólans, ítrekar skólanefndin, að fyrr ber að taka afstöðu til stöðu skólans og starfsemi hans, en að tekin verði afstaða til einstakra manna, sem stjórnenda skólans.“

Í ljósi þessara erinda og umræðna um skólann ákvað ég að láta gera úttekt á skólastarfi í Reykholti. Áður en frá málinu yrði gengið vildi ég þó ræða við skólanefnd, kennara og nemendur í Reykholti. Ákvað ég að gera það í dag á leið minni í Samvinnuháskólann í Bifröst, þar sem voru skólaslit. 

Við Rut kona mín lögðum land undir fót með Garðari bílstjóra í morgun og komum í Reykholt um hádegi, þar sem við snæddum í boði sr. Geirs og konu hans Dagnýjar, áður en fundur með skólanefndinni hófst. Var hann hinn gagnlegasti og vorum við sammála um nauðsyn úttektarinnar og úrræði, á meðan hún færi fram. Héldum við síðan í matsal skólans, þar sem Oddur Albertsson skólastjóri, kennarar og nemendur tóku á móti okkur. Kynntum við Geir niðurstöðu okkar og ég las efni bréfs, sem ráðuneytið myndi senda Hagsýslu ríkisins með ósk um úttektina. Spurningar komu frá fulltrúa kennara og nemenda. Var góður andi á fundinum en alvara, því að allir gera sér ljóst, að framtíð skólans kann að vera í húfi. 

Frá Reykholti héldum við rúmlega 14 til að vera við skólaslit í Samvinnuháskólanum í Bifröst kl. 15. ….“

Þetta er hið fyrsta sem ég skrifa í netdagbók mína um afskipti mín af málefnum Reykholts eftir að ég varð menntamálaráðherra. Dagbókarfærslurnar um ferðir mínar hingað og framvindu mála á staðnum urðu mun fleiri og var ánægjulegt að rifja þær upp þegar ég var beðinn um að líta til baka á þessum afmælisdegi.

Eins og segir í hinum tilvitnuðu orðum var órói og óvissa vegna framhaldsskólans hér vorið 1995 og eftir athugun á rekstri skólans var ákveðið að fella skólastarfið undir stjórn Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í tilraunaskyni en í ljós kom, að nemendafjöldi dugði ekki til að halda úti framhaldsskóla í Reykholti og lauk skólastarfi hér vorið 1997. 

*

Leið mín lá til Reykholts að nýju hinn 23. september 1995 þegar ég tók „þátt í athöfn, sem lagði grunninn að sjálfseignarstofnun um Snorrastofu“ eins og ég orða það í netdagbókinni og bæti við að stofan verði „í nýjum og glæsilegum húsakynnum, tengdum nýrri kirkju á staðnum. Hafa séra Geir Waage og heimamenn staðið vel að þeim framkvæmdum öllum“. 

Þá ritaði ég undir skipulagsskrá Snorrastofu í Reykholti með formanni héraðsnefndar Mýrarsýslu, Sigurjóni Jóhannssyni á Valbjarnarvöllum, formanni héraðsnefndar Borgarfjarðarsýslu, Þóri Jónssyni, formanni sóknarnefndar Reykholtskirkju Guðlaugi Óskarssyni, og Þóri Jónssyni, oddvita, fyrir hönd Reykholtsdalshrepps. Þannig stóðu ráðuneytið og þessi félög heimamanna að því að ýta Snorrastofu formlega úr vör.

Áhugann á að koma á fót stofnun til minningar um Snorra Sturluson í Reyholti mátti hins vegar rekja allt aftur á fjórða tug síðustu aldar. Þá gaf Einar Hilsen, Bandaríkjamaður af norskum ættum, sem var fulltrúi á alþingishátíðinni árið 1930, ýmsar útgáfur af verkum Snorra Sturlusonar til Reykholts í því skyni að koma slíku safni á stofn.

*

Hinn 14. júlí 1996 var efnt til athafnar hér í Reykholti til að staðfesta að Snorrastofa hefði tekið formlega til starfa. Í hinu fegursta veðri kom fólk saman til að hlíða á fyrirlestra og skoða sýningar bæði á handritum og ritverkum tengdum Snorra, og á atburðum úr þjóðarsögunni tengdum staðnum. 

„Fjölmenni var meira við athöfnina en heimamenn höfðu vænst og dróst aðeins að hún hæfist á meðan sr. Geir Waage og fleiri báru stóla í kirkjuna, þar sem dr. Jónas Kristjánsson flutti fróðlegt og skemmtilegt erindi um Snorra og þeir Þorleifur Hauksson og Gunnar Stefánsson lásu úr verkum hans. Að lokinni athöfninni í kirkjunni, sem verður vígð 28. júlí, var gengið niður í sýningarsalina. Loks var drukkið kaffi í Eddu-hótelinu,“ segir í netdagbókinni. 

Um 500 manns voru síðan við vígslu hinnar nýju Reykholtskirkju 28. júlí 1996.

Ári síðar hinn 27. júlí 1997 var þess minnst á Snorrahátíð að 50 ár voru liðin frá því að Norðmenn gáfu styttuna af Snorra eftir Gustav Vigeland hingað til Reykholts. Tók Lars Roar Langslet, fyrrverandi menningarmálaráðherra Noregs, þátt í afmælishátíðinni með okkur.

*

Eftir að starfsemi lagðist af í skólanum varð að finna eigum ríkisins hlutverk. Voru heimavistarhluti skólans og fleiri eignir auglýstar. Margar tillögur bárust og sex aðilar sögðust reiðubúnir að standa að því að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd á staðnum ef rekstrarforsendur leyfðu.

Allar hugmyndir um atvinnustarfsemi í Reykholti voru skoðaðar, m.a. af óháðum ráðgjafa, og varð niðurstaðan sú að í árslok 1997 samdi menntamálaráðuneytið um leigu á heimavistarhúsunum í Reykholti til fimm ára við hjónin Óla Jón Ólason og Steinunni Hansdóttur.  Var skrifað undir samning við þau um hótel- og veitingarekstur hinn 20. janúar 1998.

Jafnframt var hafist handa við brýnar viðgerðir á skólahúsinu sjálfu. Beitti menntamálaráðuneytið sér fyrir þeim en ákveðið var að nýta hluta þess í þágu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Um þessar mundir var unnið að því að tæma Safnahúsið við Hverfisgötu og flytja þaðan síðustu bækur í eigu Landsbóksafns. Þjóðarbókhlaðan rúmaði þær ekki allar auk þess sem skynsamlegt var talið að geyma svonefnd varaeintök safnsins fjarri Reykjavík. Var þetta verk unnið í góðu samstarfi við Landsbókasafnið á þeim tíma.

Nokkrar vangaveltur voru um nýtingu hins hluta skólahússins, Þetta var fyrir sameiningu sveitarfélaga hér í Borgarfirði og var meðal annars skoðuð hugmynd um að Þórunn Gestsdóttir, þáverandi sveitarstjóri hér, fengi inni í gamla skólahúsinu. Þá kom fram ósk um að hátíðarsalur yrði innréttaður í gömlu sundlauginni og gekk það eftir.

Hluti skólahússins var innréttaður fyrir fundi og gistingu sem nýst gæti Snorrastofu og öðrum. Var vandað til þess verks meðal annars við val á húsgögnum í þann hluta hússins sem ætlaður var til gistingar.

Efndum við Rut til kaffisamsætis í Reykholti hinn 7. október 2001 í tilefni af því að framkvæmdum menntamálaráðuneytisins við endurgerð héraðsskólahússins var lokið. Húsið er enn í eigu ríkisins.

*

Ekki voru allir sáttir við hvernig skólahúsnæðinu var ráðstafað. Snemma árs 1998 fór Ástþór Magnússon, friðarsinni og forsetaframbjóðandi, nokkuð ófriðlega og taldi það sérstaka árás á sig, að hann hefði ekki fengið skólahúsnæðið í Reykholti til ráðstöfunar og gerði lítið úr viðsemjendum menntamálaráðuneytisins og fyrirhuguðum hótel- og veitingarekstri í heimavistarhúsnæðinu.

Af minni hálfu og ráðuneytisins var það talin forsenda fyrir fjölbreytilegu starfi í Reykholti að þar væri fyrir hendi gisti- og veitingaþjónusta. Hún byggi í haginn fyrir hvers kyns aðra starfsemi. Kvartaði Ástþór til umboðsmanns alþingis vegna afgreiðslu ráðuneytisins á málinu.

Reykholt og Snorrastofa urðu hins vegar umræðuefni á hinu háa alþingi vegna reiði Ástþórs, Hinn 28. janúar 1998 lýsti Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Alþýðuflokksins og síðar sendiherra, skilningi á ósk Ástþórs um að fá Reykholt undir háskóla undir merkjum Friðar 2000. Ég benti á að heimavistarhúsnæðinu hefði þegar verið ráðstafað eftir auglýsingu þegar fyrirspurnin kom til umræðu.

Þetta varð Svavari Gestssyni, þingmanni Alþýðubandalagsins og síðar sendiherra, tilefni til að til að saka mig og menntamálaráðuneytið um „metnaðarleysi“ og „stóralvarlegan hlut þegar um Reykholt“ væri að ræða, það mætti segja að þetta væri „til skammar“. Í menntamálaráðuneytinu hefði sem sagt verið tekin ákvörðun um að „bjóða Reykholt upp“. Þingmaðurinn sagði:

„Næsta frétt frá menntmrn. verður væntanlega sú að minning Snorra Sturlusonar verði boðin upp og lysthafendur geti boðið í Snorra Sturluson. Metnaðarleysið sem blasir við í svörum hæstv. menntmrh. er ótrúlegt. Ég tel að út af fyrir sig hefði þessi hugmynd um friðarskóla í Reykholti vel getað komið til greina og geti komið til greina. En það metnaðarleysi sem felst í að þarna eigi að hefja almennan rekstur sem á afar lítið skylt við venjulegt mennta- og menningarstarf, er fráleitt. Ég harma að við skulum hafa á stóli menntmrh. mann sem ber svo litla virðingu fyrir Reykholti og Snorra Sturlusyni.“

Ég svaraði og sagði rangt metið „að halda að minning Snorra Sturlusonar ráðist af því hvernig rekstri heimavistarhúsnæðis verði háttað í Reykholti og hvort þar verði aðstaða til veitingasölu.“

Einnig sagði ég í þessu svari:

„Að sjálfsögðu ræðst virðing Snorra Sturlusonar ekki af því hvernig þessum húsakosti er sinnt en honum þarf að sinna eins og öðru þarna á staðnum. Menn mega ekki gleyma því að starfandi er sérstök stofnun, Snorrastofa, í Reykholti með aðild menntmrn. Ráðuneytið hefur tekið þátt í þeirri uppbyggingu og þar er minningu Snorra Sturlusonar sinnt. Þar á að sinna vísindum, listum og menningarstarfi í nafni Snorra Sturlusonar. Hér er um að ræða tryggingu þess að það sé aðstaða fyrir þá sem koma á staðinn til þess að gista og njóta matar. Flóknara er það ekki. Að hv. þm. skuli telja þetta atriði varðandi rekstur í Reykholti ráða örlögum um minningu Snorra Sturlusonar, það er auðvitað allt annað og þar bind ég mestar vonir við starf Snorrastofu. Allar ákvarðanir í þessu máli hafa verið teknar í fullu samráði við heimamenn sem bera hag staðarins mjög fyrir brjósti. Til þessa verks hefur ekki verið gengið með neinni óvirðingu við Snorra Sturluson. Þvert á móti tel ég að þarna séu skapaðar forsendur fyrir fjölbreyttu starfi í Reykholti þar sem minningu hans verður haldið á lofti og öðru sem tengist þessum merka sögustað.“

*

Sumarið 1998 skipaði ég nefnd til að kanna og gera tillögur um hvernig komið yrði á laggirnar í Reykholti rannskóknarstarfsemi í íslenskum og evrópskum miðaldafræðum. Nefndin skilaði áliti sínu í febrúar 1999. Þar er lagt á ráðin um það, hvernig skynsamlegast sé að efla Snorrastofu, svo að hún hafi afl til að takast á hendur það hlutverk að reka fræðasetur á sviði miðaldafræða í Reykholti.

Guðmundur Magnússon sagnfræðingur var formaður nefndarinnar og hinn 24. febrúar 1999 fórum við í Reykholt og kynntum niðurstöður hennar fyrir fulltrúum heimamanna. „Var tillögum nefndarinnar vel tekið… Einnig fórum við yfir stöðu framkvæmda á staðnum og næstu skref,“ segir í netdagbókinni.

Áður en nefndin lauk störfum eða haustið 1998 hafði Bergur Þorgeirsson bókmenntafræðingur verið ráðinn forstöðumaður Snorrastofu. Í skjalasafni menntamálaráðuneytisins er að finna minnisblað frá 14. júlí 1999 sem þeir rita undir Bergur og Bjarni Guðmundsson, fyrsti stjórnarformaður Snorrastofu, þar sem þeir segja að bráðabirgðaskrifstofa Snorrastofu hafi verið opnuð í gamla skólahúsinu, efnt hafi verið til mánaðarlegra fyrirlestra, málþinga, bæði á hótelinu og í kirkjunni. Þátttaka hafi verið mjög góð, meðal annars hefðu 250 manns sótt málþing í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Helgasonar. Starfsemin var greinilega komin á beinu brautina.

 

 

Góðir áheyrendur!

Skrefin undir merkjum Snorrastofu hafa nú verið stigin í 20 ár og aldrei hefur verið vikið frá hinum háleitu markmiðum sem sett voru í upphafi. Metnaður í rannsóknum er mikill og ánægjulegt er hve vel hefur til tekist við að ná til heimamanna í starfi Snorrastofu en fulltrúar þeirra hafa frá upphafi myndað meirihluta stjórnar stofnunarinnar.

Vegur Snorrastofu hefur ekki aðeins vaxið hér heima fyrir heldur einnig erlendis og miðvikudaginn 23. september 2015 var stofnað hollvinafélag Snorra Sturlusonar, Snorres Venner, í Bergen. Forstöðumaður Snorrastofu situr í fimm manna stjórn félagsins en Kim Lingjærde, ræðismaður Íslands í Bergen, er stjórnarformaður.

Norðmenn hafa allt frá upphafi sýnt endurreisninni hér í Reykholti mikinn áhuga og norsku konungshjónin sóttu staðinn heim og sátu veislu í hátíðarsalnum í skólahúsinu hinn 29. júlí árið 2000 þegar Snorrastofa var opnuð með formlegum hætti í einstaklega góðu og fallegu veðri. Meira en 200 Norðmenn tóku þátt í athöfninni og fluttu meðal annars hluta úr leikverki sem lýsir því þegar kristin trú kom til Noregs. 

Er fagnaðarefni að nú hafi loks verið stofnað formlegt hollvinafélag Snorra í Bergen og tóku tæplega 90 manns þátt í stofnfundinum í Bryggens Museum. Þar skammt frá á Bergen afsteypu af Vigeland-styttunni af Snorra. Frú Vigdís Finnbogadóttir er heiðurforseti félagsins og ávarpaði hún stofnfundinn af myndskeiði. Hermann Ingólfsson, sendiherra Íslands í Noregi, flutti ávarp.

 

Fyrir hönd Snorrastofu talaði séra Geir Waage og einn stjórnarmanna okkar, Jónína Erna Arnardóttir, fulltrúi Borgarbyggðar, lék á píanó en Hulda Björk Garðarsdóttir söngkona flutti nokkur lög. Þá las Bergsveinn Birgisson rithöfundur úr væntanlegri bók sinni um Geirmund heljarskinn.

 

Eins og þessi lýsing ber með sér var stofnfundurinn hátíðlegur og staðið að honum af miklum metnaði undir forystu Kims Lingjærdes ræðismanns – án hans hefði þetta skref ekki verið stigið. Vinir Snorra í félaginu er þegar orðnir um 200.


Það er komið að lokum máls míns.

Ég vil þakka séra Geir og Dagnýju konu hans samleiðina og ánægjulegt samstarf í áranna rás. Þá tel ég einstakt happ að Bergur Þorgeirsson var ráðinn forstöðumaður Snorrastofu, forsjálni hans og dugnaður er ómetanlegur. Heimamönnum og sérstaklega sóknarnefnd Reykholtskirkju sem sýnir mér traust og vinarhug með því að velja mig sem formann stjórnar Snorrastofu færi ég sérstakar þakkir og heillaóskir.

Frá upphafi hafði ég að leiðarljósi að aldrei yrði gert neitt við umbreytinguna í Reykholti sem ekki nyti stuðnings eða skilnings heimamanna. Ég vona að aldrei verði horfið af þeirri braut.