17.10.2015 19:00

Laugardagur 17. 10. 15

Á mbl.is segir í dag:

„Isa­via ætl­ar ekki að skila gögn­um til Kaffitárs um for­val á leigu­rými í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar þrátt fyr­ir að úr­sk­urðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál hafi gert fé­lag­inu að skila gögn­un­um. Þetta sagði Björn Óli Hauks­son, for­stjóri Isa­via, í Viku­lok­un­um á Rás 1 í morg­un. 

Dóms­mál Kaffitárs gegn Isa­via var þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í gær. Isa­via fékk frest til mánaðar­móta til að skila grein­ar­gerð.

 „Það sem er verið að biðja um núna eru ekki upp­lýs­ing­ar um hvernig Isa­via vinn­ur,“ sagði Björn Óli. „Það er verið að biðja um upp­lýs­ing­ar hvernig þessi fyr­ir­tæki sem tóku þátt í þessu útboði vinna, það eru miklu meiri upp­lýs­ing­ar um fyr­ir­tæki held­ur en þau eðli­lega myndu gefa.“ 

Hann sagði að Isa­via ætlaði ekki að af­henda gögn­in og þannig halda trúnaði við fyr­ir­tæk­in sem tóku þátt í útboðinu.“

Leyndarhyggjan sem einkennir störf Isavia er ekki traustvekjandi. Úrskurðarnefndin sem Isavia treystir ekki til að komast að réttri niðurstöðu er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd. „Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir og verður ekki skotið annað innan stjórnsýslunnar. Þeir hafa því jafnframt fordæmisgildi fyrir önnur stjórnvöld og stuðla þannig að auknu samræmi í framkvæmd upplýsingalaganna,“ segir á vefsíðu nefndarinnar. Tveir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar en hinn varaformaður.

Úrskurðarnefndin hefur tvisvar sinnum fjallað um beiðni Kaffitárs um umbeðnar upplýsingar og í báðum tilvikum hafnað kröfum Isavia í ítarlegum og vel rökstuddum úrskurðum. Síðustu ummæli Björns Óla um eðli upplýsinganna sem um er beðið bera merki um að forráðamenn Isavia fara úr einu víginu í annað í málflutningi sínum. Þeir gera jafnframt allt í þeirra valdi til að draga að afhenda hin umbeðnu gögn. Að gera því skóna að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki tekið mið af lögmætum hagsmunum í úrskurðum sínum ber vott um mikla þrákelkni.

Þetta málavafstur hins opinbera hlutafélags er enn ein staðfestingin á því að ohf-væðingin hefur misheppnast. Að fyrirtæki á borð við Isavia hafi á hendi stjórn tug milljarða framkvæmda á Keflavíkurflugvelli er ekki traustvekjandi. Undarlegt er að stjórnvöld hafi ekki á dagskrá að umbylta starfseminni á flugvellinum og treysta einkaaðilum í ríkara mæli fyrir honum.