21.10.2015 17:30

Miðvikudagur 21. 10. 15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, í tilefni af 42. landsfundi flokksins sem hefst föstudaginn. Nefndarfundir verða frá kl. 10.00 á föstudagsmorgni en klukkan 16.30 flytur Bjarni Benediktsson flokksformaður setningarræðu sína. Samtal mitt við Þórð verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan sýnt á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Í dag birti MMR niðurstöðu skoðanakönnunar sem sýndi að fylgi flokksins hefði minnkað um 3 stig frá síðustu könnun MMR, fylgið er nú tæp 22%. Umræður um flokkinn hafa verið neikvæðar undanfarið, einkum vegna stöðu Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Þrátt fyrir birtingu gagna um persónuleg fjármál sín býr Illugi enn við mikinn andróður. Bjarni Benediktsson sagði réttilega að í Kína hefði Illugi ekki gert annað en aðrir ráðherrar hefðu gert í ferð með stjórnendum fyrirtækja. Áherslan í hinum neikvæðu umræðum er þó á öðrum þáttum.

Sjálfstæðisflokkurinn nær sér ekki á strik nema hann styrki stöðu sína í Reykjavík og meðal ungs fólks.

Í gærkvöldi, þriðjudaginn 20. október, urðu stjórnarskipti í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Krist­ín Edwald hæsta­rétt­ar­lögmaður var kjör­in formaður. Frá­far­andi formaður, Ótt­arr Guðlaugs­son, gaf ekki kost á sér til end­ur­kjörs. Auk Krist­ín­ar voru Rúna Malmquist, Matt­hild­ur Skúla­dótt­ir, Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir, Theo­dór Bend­er, Sig­urður Helgi Birg­is­son, Gísli Kr. Björns­son og Kristján Er­lends­son kjör­in í stjórn Varðar.

Í samtali okkar Þórðar kemur fram að öflugur hópur ungs fólks vinni ötullega að málefnalegri þátttöku í landsfundinum. Verður spennandi að sjá hverju þetta ágæta fólk fær áorkað á fundinum.

Þetta tvennt: stjórnaskipti í Verði og virk þátttaka ungs fólks í starfi landsfundarins kann að verða kveikjan að nýrri sókn Sjálfstæðisflokksins á hann veikustu sviðum.