25.10.2015 18:30

Sunnudagur 25. 10. 15

Í dag lauk 42. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður. Hann hlaut 753 atkvæði, eða 96% gildra atkvæða. Alls greiddu 799 atkvæði. Ólöf Nordal var kjörin varaformaður með 771 atkvæði af 816, 96,7%. Loks var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kjörin ritari flokksins með 668 atkvæði af 783, 91%.

Þessar tölur sýna mikinn einhug um forystu flokksins. Þetta er í fjórða sinn sem Bjarni er kosinn formaður frá 2009 þegar hann hlaut 58% stuðning. Árin 2011 og 2013 ríkti ekki einhugur um hann í formannskjöri en niðurstaðan nú sýnir að hann hefur áunnið sér óskorað traust flokksmanna og hefur öflugasta umboð flokksformanns í landinu vegna þess hve margir standa að baki kjöri hans.

Ólöf Nordal snýr aftur í sæti varaformanns eftir rúmlega tveggja ára fjarvist. Hún sagðist orðlaus yfir eindregnum stuðningi við sig í þakkarræðu. Áslaug Arna er 24 ára nýliði í æðstu stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ungir sjálfstæðismenn létu verulega að sér kveða á landsfundinum og höfðu erindi sem erfiði þegar litið er til kosninga og ályktana. Þeim var sýnt mikið traust á fundinum og er ekki að efa að þeir standa undir því þegar á reynir utan fundarins.

Ný fundarsköp  voru „prufukeyrð“ á þessum landsfundi. Þau reyndust að mörgu leyti vel og tókst á markvissan hátt að beina athygli fundarins að efnum sem kölluðu á sérstakar umræður. Síðdegis í dag var aðeins ályktun allsherjar- og menntamálanefndar óafgreidd auk stjórnmálaályktunar og breytinga á skipulagsreglum. Þá var eins og botninn dytti úr afgreiðslu mála og fundarmenn máttu sitja lengi aðgerðalausir án þess að fundarstjóri upplýsti um framvindu mála. Bilun í tölvukerfi olli greinilega vandræðum en fundurinn var pappírslaus og skipti því miklu að geta brugðið textum á skjái í salnum. Minnti biðin dálítið á setu á flugstöð þar sem ekki er skýrt frá ástæðu tafar á brottför.

Eftir að formaður, varaformaður og ritari höfðu verið kjörin hvarf ég af fundi enda var í dagskrá hans gert ráð fyrir fundarlokum um klukkan 16.00. Þegar þetta er skrifað rúmlega 18.00 segir í fréttum að fundinum sé enn ólokið. Megi rekja þetta til hinna nýju fundarskapa eða skorts á pappír við afgreiðslu mála hljóta menn að læra af reynslunni. Hinn góði og málefnalegi landsfundur dróst einfaldlega um of á langinn.

ps. Fundinum lauk ekki fyrr en rúmlega 19.00.