13.10.2015 19:15

Þriðjudagur 13. 10. 15

Látið er eins og það snerti ekki fjárhag ríkisins að hefja eigi framkvæmdir til að unnt verði að taka á móti 25 milljónum farþega á Keflavíkurflugvelli árið 2040. Kostnaður vegna þessa nemur mörgum tugum milljarða. „Ekki er gert ráð fyrir að ríkið þurfi að leggja fjármuni til framkvæmdanna,“ sagði fréttastofa ríkisútvarpsins. Hún lét þess að ríkið á allt á öll mannvirki á Keflavíkurflugvelli og annast auk þess rekstur þeirra. Stóra viðfangsefnið er auðvitað að ákveða hvort það sé hagskvæmast fyrir ríkið og þjóðarbúið að þetta sé allt á hendi ríkisins. Hvergi í heiminum hefur ríkið reynst betri rekstrar- eða framkvæmdaaðili en einstaklingar eða fyrirtæki þeirra. Er Keflavíkurflugvöllur undantekningin sem sannar regluna?

Árið 2007 fóru 2,5 milljón farþega um Keflavíkurflugvöll, árið 2014 voru þeir 3,8 milljónir. Þeim fjölgaði um 1,3 milljón á sjö árum, eða um 200 þúsund á ári, 8%. Aukningin síðustu tvö ár hefur reyndar verið gríðarleg. Ástæðulaust er þó að gleyma því að árið 2010 fækkaði farþegum á vellinum niður í rúma milljón.

Um Kastrup við Kaupmannahöfn fara 25 milljón farþegar, Arlanda við Stokkhólm um 22 milljón farþegar og Landvettern við Gautaborg 5 milljónir svo að dæmi séu tekin. Nú ætlar Isavia sér að vera með 25 milljón farþega á Keflavíkurflugvelli eftir 25 ár og vinna eftir því plani. Hver eru rökin?

Á Norðurlöndum fjölgar farþegum á flugvöllum að meðaltali um 3-4% á ári. Yrði þróunin sambærileg á Keflavíkurflugvelli yrði fjöldinn um 8,5 milljónir eftir 25 ár – útreikningar Isavia virðast gera ráð fyrir 8 til 10% vexti farþegafjölda til frambúðar.

Margar hliðar eru á vexti á borð við þann sem felst í þessum spám Isavia. Hvernig verður öryggismálum háttað? Augljóst er að allt öryggiseftirlit á Keflavíkurflugvelli er að sligast undan hinu gífurlega álagi þegar rúmlega milljón ferðamenn koma til landsins og að auki fara þrjár til fjórar milljónir sem „gegnumfarþegar“ um völlinn.

Isavia hefur glatað trúverðugleika vegna leyndarhyggjunnar. Tölur um fjölgun farþega umfram allt sem venjulegt er í nágrannalöndunum þarf að rökstyðja og ekki láta eins og það skipti fjárhag ríkisins engu þegar ríkisfyrirtæki ræðst tug milljarða fjárfestingu.