18.10.2015 19:00

Sunnudagur 18. 10. 15

Í dag efndu Rut og Richard Simm píanóleikari til tónleika í Hlöðunni að Kvoslæk. Þau fluttu verk eftir Mozart, Bach og Brahms. Tónleikarnir voru vel sóttir í góðu haustverði.

Umræður um stöðu flóttamanna hér á landi taka á sig einkennilegar myndir. Lögmætar ákvarðanir eru teknar í hverju málinu eftir öðru.  Þegar niðurstöður um brottvísanir eru kynntar er þess krafist að þeim sé ekki hrundið í framkvæmd. Hvar setja menn mörkin ef þeir hverfa frá reglunni um að allir séu jafnir fyrir lögunum? Ræðst framkvæmd hennar af málaflokkum?

Kosið var til þings í Sviss í dag. Þegar helmingur atkvæða hafði verið talinn stefndi í stórsigur fyrir Lýðflokk Sviss (SVP), hægri flokk landsins. Spáð er að  þingmönnum hans fjölgi um 11 í 64 þingmenn. Flokkurinn hefur aldrei fengið fleiri þingmenn, árið 2007 náði hann bestum árangri til þessa með 62 þingmenn. Líkur eru á að fjórir flokkar hægra megin við miðju fái hreinan meirihluta á þingi, 101 þingmann af 200.

Eitt helsta baráttumál SVP er að útlendingalög séu ströng og staðið sé gegn ólöglegum innflytjendum. Meðal þeirra sem náð hafa kjöri er Magdalena Martullo-Blocher. Hún er dóttir Christophs Blochers, eins af forystumönnum SVP. Honum er gjarnan lýst sem umdeildasta stjórnmálamanni Sviss. Hann var dómsmálaráðherra árin 2004 til 2007 áður en honum var ýtt til hliðar þar sem hann þótti of harður í horn að taka.

Ég hitti Blocher á Schengen-ráðherrafundum. Hann vildi ekki stjórna þeim og var það ein af ástæðunum fyrir að samið var um aukinn rétt Schengen-ríkja utan ESB samhliða því sem þau féllu frá fundarstjórn á ráðherrafundum í blönduðu nefndinni (Mixed Committee). Minnist ég morgunverðarfundar um þetta með Blocher í sendiráði Sviss skammt frá gömlu Luxemborgar-brautarstöðinni í Brussel. Þar bar hann ekki með sér að forðast málefnalega niðurstöðu í samvinnu við aðra.