22.10.2015 15:30

Fimmtudagur 22. 10. 15

Samtal mitt við Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN er komið á netið og má sjá hann hér.

Hillary Clinton, fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna og væntanlegur forsetaframbjóðandi demókrata, kom fyrir sérnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um árásina á ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Benghazi í Líbíu 11. september 2012. Demókratar saka meirihluta repúblíkana í fulltrúadeildinni um að stofna sérnefndina til þess eins að koma höggi á Clinton. Yfirheyrslurnar hófust á yfirlýsingum repúblíkanans, formanns nefndarinnar, og oddvita demókrata í nefndinni um eðli nefndarsamstarfsins. Markmið demókrata er að gera nefndarstarfið tortryggilegt. Það sé hluti af pólitískum ofsóknum gegn öflugasta frambjóðanda sínum. Hvað sem þeim flokkspólitísku deilum líður er Hillary Clinton skylt að svara spurningum nefndarmanna.

Í gæt tilkynnti Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, að hann mundi ekki keppa við Hillary Clinton í prófkjöri demókrata. Hann flutti 13 mínútna ræðu í Rósagarði Hvíta hússins með Barack Obama forseta við hlið sér. Fréttaskýrendur eru þeirrar skoðunar að ræðan hafi í raun verið framboðsræða þótt Biden segðist ekki bjóða sig fram, hann þyrfti lengri tíma til að jafna sig eftir andlát sonar síns.

Í The New York Times segir að Biden hafi allt til síðustu stundar haft áform um framboð í því skyni að standa vörð um arfleifð Obama, eins og það er orðað. Hann hafi hins vegar skort fé í kosningasjóð sinn, hann hefði orðið að verja miklum tíma til að safna fé en áhugi hans á pólitískri fjáröflun sé lítill. Þá er bent á að í ræðu sinni hafi Biden beint spjóti sínu að Hillary Clinton án þess að nefna hana á nafn. Í blaðinu segir:

„Hr. Biden virtist einnig finna að frú Clinton fyrir að hafa tekið til við það nýlega að draga skil á milli sín og arfleifðar Obama, eins og hún hefur gert varðandi alþjóðaviðskipti, Sýrland, olíuborun á norðurslóðum og önnur mál. „Demókratar eiga ekki aðeins að verja þessa arfleifð og varðveita þessa arfleifð þeir eiga að bjóða sig fram í anda þessarar arfleifðar,“ sagði Biden.“

Hillary Clinton situr heilan dag fyrir svörum hjá sérnefndinni um Benghazi – yfirheyrslunni er ekki lokið þegar þetta er skrifað. Enginn vafi er á að þetta samtal nefndarmanna við Hillary Clinton verður grandskoðað til að finna veikan punkt í málflutningi hennar. Hvort sá punktur finnst kemur í ljós en öllum er ljóst að frambjóðandinn er í essinu sínu við aðstæður sem þessar.