10.10.2015 19:00

Laugardagur 10. 10. 15

Gerð hefur verið heimildarmynd um síðasta mánuð Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Stikla til kynningar á myndinni hefur að sögn að geyma gagnrýni Jóhönnu á eftirmann hennar á formannsstóli Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason. Kennir hún honum um að hafa komið í veg fyrir að stjórnarskrármálið hlyti afgreiðslu á þingi fyrir kosningar 2013. Þá mun Jóhanna einnig skella skuld á þingflokk samstarfsmanna sinna í VG.

Ögmundur Jónasson sat í ríkisstjórn Jóhönnu og vísar ummælum hennar um VG til föðurhúsanna, henni væri nær að líta í eigin barm. Verkstjórn hennar hafi brugðist. Árás hennar á Árna Pál sé ómakleg,

Í raun hefði verið stílbrot hjá Jóhönnu að skella ekki skuldinni á aðra í stjórnarskrármálinu. Frá upphafi ferils síns sem forsætisráðherra hélt hún hins vegar svo klunnalega og frekjulega á málinu að það hlaut að fara illa. Frá 1. febrúar til kosninga vorið 2009 hafði Jóhanna framsóknarmenn í stjórnarskrárliðinu með sér. Gekk Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, erinda Jóhönnu sem formaður þingnefndar um málið. Öll málsmeðferðin var á þann veg að hún bar dauðann í sér.

Stjórnarskrármálið var aðeins eitt af hjartans málum Jóhönnu sem forsætisráðherra. Hún ætlaði einnig að umbylta sjávarútvegsmálunum og kippa löppunum undan kvótakerfinu. Loks átti að semja um aðild að ESB á hennar vakt. Allt rann þetta út í sandinn. Hverjum skyldi hún kenna um það í heimildarmyndinni?

Í þætti Gísla Marteins Baldurssonar, Vikunni, sem var frumsýndur föstudaginn 2. október 2015 var birt niðurstaða í skoðanakönnun þar sem spurt var: „Hver af eftirtöldum forsætisráðherrum telur þú að hafi staðið sig best í embætti?“ Flestir,  43,1%, töldu Jóhönnu hafa staðið sig best. Það er ekki öll vitleysan eins!

Kjarninn segir frá því í dag að SkjárEinn hafi frumsýnt þáttinn Voice Ísland sama kvöldið og þáttur Gísla Marteins var frumsýndur. Gallup hafi mælt meðaláhorf  á Voice Ísland hjá Íslendingum á aldrinum 12 til 80 ára 20,1 prósent og uppsafnað áhorf 28,7 prósent. Þáttur Gísla Marteins hafi ekki komist inn á topp tíu lista fyrstu vikuna sem hann var í loftinu, sem þýði að meðaláhorf á hann hafi að minnsta kosti verið minna en á breska þáttinn Poldark, sem var með 18,7 prósent meðaláhorf og 26,8 prósent uppsafnað áhorf.