29.10.2015 19:00

Fimmtudagur 29. 10. 15

Samtal mitt við Trausta Valsson prófessor á ÍNN í gær er komið á netið og má sjá það hér.

Nú hefur skýrsla starfshóps um ríkisútvarpið, stöðu þess og rekstur, loks verið birt opinbrelega. Á ruv.is birtist útskrift  á viðtali við Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, um skýrsluna og lýkur því á þann veg að Illugi er spurður hvernig hann hafi greitt atkvæði á landsfundi sjálfstæðismanna um sölu á ríkisútvarpinu. Hann svarar:

„Það var reyndar þannig að í mennta- og menningarmálanefndinni var tekist á um þetta mál þar sem niðurstaðan varð nú nokkuð önnur. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Ég sé ekki alveg hvernig menn ættu að standa að því. En niðurstaðan sem ég síðan studdi var að menn skyldu þá skoða þetta rekstrarform, ohf., og ég held að það sé alveg tímabær umræða.“

Ráðherrann vísar í orðum sínum í niðurlagsorð ályktunar landsfundarins um tillögu frá allsherjar- og menntamálanefnd þar sem segir m.a.:

„Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd. […] Mikilvægt er að varðveita menningararf þann sem Ríkisútvarpið ohf. hefur umsjón með og gera efni í eigu stofnunarinnar aðgengilegt almenningi.“

Í ályktun frá fjárlaganefnd sem landsfundurinn samþykkti segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, rekstur flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og annan verslunarrekstur Isavia sem og RÚV.“

Landsfundurinn var þannig tvíátta í afstöðunni til ríkisútvarpsins sem ríkisfyrirtækis. Nú hefur ráðherra stofnunarinnar ákveðið að verja hana sem ríkiseign en hugsanlega í breyttu formi.

Í ályktuninni um fjármál ríkisins er áréttuð hin klassíska stefna sjálfstæðismanna að ríkið eigi að halda sig frá fyrirtækjarekstri. Hér hefur margoft verið hvatt til sölu á rekstri á Keflavíkurflugvelli. Á hinn bóginn hef ég ekki andmælt ríkisrekstri á útvarpi.

Ég greiddi hins vegar atkvæði með tillögu fjárlaganefndar landsfundarins. Miðað við tækniþróun er nærtækast að opinberum fjármunum sé varið til að styðja metnaðarfullar einkareknar efnisveitur. Um heim allan sýna stuðla þær að grósku. Hið sama gildir hér. Síminn stendur til dæmis að beinum sjónvarpssendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur hannað rými vegna þess á aðalsíðu sinni. Um árabil hefur ríkisútvarpinu staðið þetta efni til boða án þess að sýna því áhuga.