6.10.2015 20:10

Þriðjudagur 06. 10. 15

Þegar gjaldeyrishöftin voru sett haustið 2010 var hugsunin að baki þeim að þau yrðu við lýði í 10 mánuði eða svo. Í febrúar 2009 settist ný ríkisstjórn að völdum og sat fram á vor 2013. Ráðherrar hennar sögðu ekki unnt að afnema höftin nema með því að ganga í ESB þótt annar stjórnarflokkanna væri andvígur ESB-aðild.

Höftin lifðu enn góðu lífi þegar stjórnin hvarf frá völdum eftir afhroð í kosningum. Ný ríkisstjórn tók haftamálin nýjum tökum og nú hefur fundist leið til að aflétta þeim þótt brottfarardagur haftanna hafi ekki verið kynntur.

Seðlabanka Íslands var falin framkvæmd haftanna. Það verk hefur ekki orðið til þess að auka veg bankans. Fyrir ráði hans liggur nú bréf frá risafyrirtækinu Samherja en Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri fyrirtækisins, hefur farið hörðum orðum um stjórnsýslu og stjórnarhætti í bankanum við framkvæmd gjaldeyrishaftanna sem fólst meðal annars í kæru bankans til sérstaks saksóknara. Hann grandskoðaði mál Samherja en féll frá ákæru.

Í dag 6. október birtist frétt í Morgunblaðinu um bréf umboðsmanns alþingis vegna kvörtunar Heiðars Guðjónssonar fjárfestis í framhaldi af því að seðlabankinn brá fæti fyrir kaup hans á hlut í Sjóvá. Heiðar kvartaði til umboðsmanns 23. nóvember 2010 og fær nú tæpum fimm árum síðar bréf frá umboðsmanni þar sem fram kemur að á þessum árum hafi hann fengið fleiri ábendingar og kvartanir sem tengjast verklagi seðlabankans við framkvæmd gjaldeyrishaftanna.

Samhliða bréfinu til Heiðars sendir umboðsmaður bréf til efnahags- og fjármálaráðherra og fleiri aðila þar sem hann veltir upp álitaefnum og óskar viðbragða viðtakenda snemma árs 2016. Af álitaefnunum má ráða að verulegir vankantar hafa verið á stjórnsýslu og framkvæmd gjaldeyrishaftanna hjá seðlabankanum.

Umboðsmaður hefur ekki sagt lokaorð sitt í málinu og langar útlistanir hans snúast eins og oft áður um afsakanir á hve lengi hann hefur setið með málið í fanginu. Í skýrslum umboðsmanns til alþingis er oft fundið að hve lengi stofnanir og ráðuneyti séu að bregðast við tilmælum umboðsmanns. Agavald umboðsmanns í þessu efni dofnar til mikilla muna þegar lesnar eru lýsingar hans sjálfs á eigin vanda við að afgreiða mál. Hann tilkynnir Heiðari Guðjónssyni þó í lok bréfs til lögmanns hans að bréfið frá 23. nóvember 2010 muni ekki „koma til frekari athugunar“.