2.10.2015 19:50

Föstudagur 02. 10. 15

Hinn 29. september var sagt frá því í sjónvarpsfréttum að Reykjavíkurborg, sem glímir við mikinn fjárhagsvanda, hefði selt lóð á Valssvæðinu við Hringbrautina undir risahótel á 40.000 kr. fm. Af þessu tilefni sagði Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina, á ­Pressunni 30. september

„Forsaga málsins er sú að 2. apríl 2008 gerði Framkvæmda- og eignasvið borgarinnar samning við S10 ehf. um kaup S10 ehf. á byggingarrétti á lóð við Njarðargötu. Borgarráð staðfesti ekki samninginn með vísan til þess að ótímabært væri að úthluta byggingarrétti á lóðinni þar sem óvissa væri uppi um framtíðarskipulag svæðisins og framtíðarnotkun þess og lóðarinnar.

Í kjölfarið höfðaði S8 ehf., sem var í eigu sama aðila og S10 ehf., mál á hendur Reykjavíkurborg til að láta reyna á afgreiðslu borgarráðs í málinu. Þeim málaferlum lauk með dómsátt sem var gerð milli aðila hinn 8. desember 2008. Samkvæmt dómsáttinni er gert ráð fyrir að félaginu verði „……..úthlutað og seldur byggingarréttur á aðliggjandi svæði þegar endurskoðun gildandi deiliskipulags samhliða vinnu við framtíðarskipulag allrar Vatnsmýrarinnar liggur fyrir eða fyrr, ef ljóst verður hvort fyrirliggjandi hugmyndir stefnanda um uppbyggingu samræmist heildarendurskoðun svæðisins.“ Þá kemur fram í dómsáttinni að forgangsrétturinn að úthlutun lóðarinnar skuli gilda í fimm ár frá dagsetningu dómsáttarinnar. Borgarráð hafði í tvígang framlengt dómsáttina vegna tafa á skipulagsvinnunni.

Í sumar óskaði skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar eftir heimild borgarráðs til að ganga til samninga við S8 ehf. um lóð, sem merkt er H á Hlíðarendasvæði í stað lóðarinnar, sem dómsáttin nær til, „svo ná megi markmiðum þeim sem sett eru fram í rammaskipulagi fyrir svæði Háskóla Íslands og Vísindagarða.“

Á fundi borgarráðs 13. ágúst sl. var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta S8 ehf. umræddri lóð þ.e. 6.594 fermetra lóð við Hlíðarenda merkt H.

Var það samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldóri Halldórssyni. Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Áslaug Friðriksdóttir sat hjá við atkvæðagreiðsluna.“

Andstaða Guðfinnu og Halldórs var vegna þess að hótelið er í fluglínu – en er ekki ástæða til að huga að öðru vegna þessara einkennilegu viðskipta?