5.10.2015 20:45

Mánudagur 05. 10. 15

Í dómi hæstaréttar frá 1. október í máli hælisleitanda frá Gana sagði:

„Af gögnum málsins verður ráðið að ítölsk yfirvöld muni veita áfrýjanda [hælisleitandanum] þá vernd, sem áskilin er í alþjóðlegum skuldbindingum Ítalíu á sviði mannréttinda, þar á meðal samkvæmt reglunni um „non-refoulement“, sem öll ríki Evrópusambandsins eru bundin af, verði áfrýjandi sendur aftur til landsins. Þá verður ekki talið að slíkir gallar séu á málsmeðferð og skilyrðum til móttöku hælisleitenda á Ítalíu að talið verði að þar í landi sé fyrir hendi kerfislægur galli, sem leiði til þess að áfrýjandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta þar ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Af þeim sökum stóðu ákvæði 45. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga því ekki í vegi að íslenskum stjórnvöldum væri með vísan til 46. gr. a. laganna heimilt að synja fyrir að taka umsókn áfrýjanda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 17. desember 2013 í máli nr. 445/2013. Sjá einnig til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 30. júní 2015 í máli A.S. gegn Sviss.“

Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms um að réttmætt sé að vísa umræddum hælisleitanda úr landi. Á alþingi í dag sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra:

Ég hef vegna þessa máls [ganverska hælisleitandans] sagt að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir þessa hluti eins og við höfum verið að gera fram til þessa og passa okkur á því að við steypum fólki ekki í óöruggt umhverfi innan landa sem menn eru ekki öruggir um að séu í lagi. Ég hef þess vegna óskað eftir því við Útlendingastofnun að hún bíði með að vísa þessum hælisleitendum á brott til Ítalíu þar til búið er að leggja almennilegt mat á það hvernig þetta er núna á grundvelli Schengen-ríkjanna og þá sérstaklega í samhengi við fund sem ég sæki á þeim vettvangi í þessari viku.

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem vísað er til Ítalíu standi ekki „frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta þar ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð“. Nú í vikunni ætlar Ólöf Nordal sjálf að kynna sér stöðuna á Ítalíu í tengslum við Schengen-ráðherrafund sem hún sækir. Vandaðri verður málsmeðferðin ekki. Endanleg niðurstaða mun fást, að um hana verði sátt er ólíklegt.