22.3.2009 21:30

Sunnudagur, 22. 03. 09.

Erfitt er að átta sig á því, hvað er fréttnæmt við að vinstri-grænir álykta á þann veg, að þeir vilji ekki starfa með sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn. Hafa þeir nokkru sinni viljað það í 10 ár? Ég veit ekki til þess. Þeir hafa ekki heldur viljað starfa með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn Reykjavíkur.

Hver er fréttin? Jú, að landsfundurinn treysti forystumönnum sínum ekki til þess að halda áfram á sömu braut og vildi binda hendur þeirra með sérstakri flokkssamþykkt. Auðvitað koma stjórnmálafréttaritarar ekki auga á eina fréttapunktinn.

Einar K. Guðfinnsson, góður samstarfsmaður og samþingmaður síðan 1991, lenti í öðru sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í norðvesturkjördæmi. Ásbjörn Óttarsson, forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, hlaut fyrsta sæti. Hann er mikill baráttumaður. Megi þeim og meðframbjóðendum þeirra vegna vel.

Nú stefnir örugglega í formannskjör í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum eftir viku, því að Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, lýsti yfir framboði sínu í dag, en Bjarni Benediktsson hafði gert það 31. janúar. þetta verður ekki uppklappskjör  fyrir formann eins og hjá vinstri-grænum og Samfylkingu.

Skilja má niðurstöðu landsfundar vinstri-grænna þannig, að Steingrímur J. hafi verið endurkjörinn formaður, af því að hann væri örugglega að hætta formennsku bráðum. Jóhanna Sigurðardóttir tekur að sér tímabundna formennsku í Samfylkingunni, af því að innviðir flokksins þola ekki alvöru formannskjör.