2.3.2009 20:51

Mánudagur, 02. 03. .09.

Ótrúlegt var að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur lýsa yfir því á alþingi í dag, að engu máli skipti, þótt þing yrði rofið, samt skyldi það sitja áfram að störfum, af því að hún þyrfti að koma svo mörgum málum í gegn og hefði aðeins fengið eitt afgreitt sem lög síðan hún varð forsætisráðherra.

Þessi framganga öll er svo yfirgengileg og úr takti við allt, sem tíðkast hefur í samskiptum þings og ríkisstjórnar, að ekkert orð Jóhönnu, Steingríms J. Sigfússonar eða Ögmundar Jónassonar í stjórnarandstöðu um nauðsyn þess, að ráðherrar sýndu alþingi virðingu, dugar til að lýsa óvirðingunni, sem þinginu er sýnd, þegar gefið er til kynna, að þingmenn eigi bara sætta sig við ráðherraduttlungana og seinagang þeirra við að ganga frá málum til framlagningar á þingi.

Það er í góðu samræmi við umsnúninginn í afstöðu þessa fólks til þingsins, að álitsgjafinn staðfasti, Egill Helgason, tekur undir með Jóhönnu, þegar hún lætur eins og þingmenn séu ekkert ofgóðir til að hlýða sér.

Nú kann einhver spekingurinn að segja, að ég hefði ekki skrifað á þennan veg, ef ég sæti í ríkisstjórn. Þessu svara ég einfaldlega á þann veg, að sæti ég undir forystu forsætisráðherra, sem sinnti embættisskyldum sínum eins og Jóhanna Sigurðardóttir gerir, mundi ég leggjast gegn því, að staðið yrði að málum á þann veg, sem hún boðar og vinna þeirri skoðun fylgis innan míns flokks.

Orðspor þjóðarinnar er að engu haft með því að ráða Norðmann sem seðlabankastjóra gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Lagt er á ráðin með forsætisráðherra Noregs um hvernig ríkisstjórn eigi að vera hér að kosningum loknum og hann blandar sér í íslensk innanríkismál með yfirlýsingum um rauðgræna stjórn að sinni fyrirmynd og fer síðan í heimsókn í Seðlabanka Íslands til einkafundar við landa sinn, hinn setta seðlabankastjóra.

Hvernig væri að sýna ríkisstjórninni kvikmyndina um Lénharð fógeta? Eða benda henni á nýútkomna ævisögu, sem heitir Amtmaðurinn á einbúasetrinu og snýst að öðrum þræði um aldalanga baráttu Íslendinga fyrir því, að æðstu embættismenn þjóðarinnar séu íslenskir.