14.3.2009 20:37

Laugardagur, 14. 03. 09.

Ný samhent forysta fæðist í Sjálfstæðisflokknum í kvöld, þegar þeir ná kosningu í fyrsta sæti í suðvesturkjördæmi og Reykjavík Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson. Stökkið hefur verið tekið frá kynslóð okkar, sem náðum kjöri 1991 og þar áður, til nýrrar kynslóðar. Þá koma þau sterk til leiks Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Pétur H. Blöndal. Ólöf Nordal býður sig fram í fyrsta sinn í Reykjavík og nær góðu sæti á listanum. Óli Björn Kárason sækist í fyrsta sinn eftir kjöri og flýgur að því er virðist baráttulaust í fimmta sæti í suðvesturkjördæmi, glæsilegur árangur. Almennt getur þingflokkurinn vel við unað, þótt sætin séu ekki endilega þau, sem að var stefnt. Ég færi frambjóðendum og flokknum heillaóskir.

Úrslitin í Samfylkingunni sýna minni samheldni en í Sjálfstæðisflokknum, þegar litið er til þess, að tveir ráðherrar rúlla niður listana, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir í Reykjavík og Þórunn Sveinbjarnardóttir í suðvesturkjördæmi. Úrslitin fóru eftir pöntun flokksforystunnar í Reykjavík, Jóhanna og Össur í efstu sætunum en Össur með mun færri atkvæði en Jóhanna. Mörður Árnason er varla í augsýn og á líklega ekki eftir að lífga upp á þingstörf með léttleika sínum og jákvæðum athugasemdum á næsta kjörtímabili.

Árni Páll Árnason sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi. Þar hafði verið talið, að með því einu að bjóða sig fram mundi Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sigra, hann varð hins vegar í þriðja sæti á eftir Árna Páli og Katrínu Júlíusdóttur. Líklegt er, að engum detti lengur í hug, að Lúðvík sækist eftir formennsku í Samfylkingunni. Víst má hins vegar telja, að nú hugi Árni Páll að því að bjóða sig fram til formennsku en fyrir prófkjörið hafði hann boðið sig fram sem varaformann.

Hafi úrslit prófkjaranna í dag innsiglað framvindu formannsmála í Sjálfstæðisflokknum hafa þau galopnað formannsmálin í Samfylkingunni. Líklegast, að nú verði meira kapp lagt á það en áður, að knýja Jóhönnu Sigurðardóttur til að axla formennskuna til tveggja ára. Sættir Árni Páll sig við það?