24.3.2009 18:38

Þriðjudagur, 24. 03. 09.

Fyrirlestrasalurinn var þéttsetinn í Háskólanum í Reykjavík, þar sem við Þorsteinn Pálsson, fyrrv. ráðherra, vorum frummælendur um Evrópumál í hádeginu. Að loknum framsöguræðum, hér er mín, svöruðum við spurningum.

Fundurinn staðfesti, sem fram hefur komið innan Sjálfstæðisflokksins undanfarna mánuði, að umræður um Evrópumál milli sjálfstæðismanna eru líklegri til að vera málefnalegar en til dæmis opinberar umræður milli sjálfstæðismanna og samfylkingarmanna. Hvers vegna? Jú, vegna þess að innan Samfylkingarinnar hafa menn tileinkað sér þann stíl í Evrópuumræðum, að telja sig hafa efni á því að fara í meting við þá, sem þeim eru ekki sammála, og láta eins og þeir hafi höndlað eitthvað í málinu, sem sé betra en það, sem aðrir hafa.

Einkennilegar umræður voru í upphafi þingfundar, þegar tekist var á um, hve fundir skyldu standa lengi á alþingi í dag. Við sjálfstæðismenn töldum ónauðsynlegt að þingfundur stæði lengur en til miðnættis en stjórnarflokkarnir vildu sitja fram á nótt yfir dagskrá, sem snerist lítt um hin brýnu mál heimila og fyrirtækja. Ég tók þátt í umræðum um tvö frumvörp dóms- og kirkjumálaráðherra, um heimild til gjaldtöku vegna íslenskuprófa þeirra, sem sækja um ríkisborgararétt, og um sérstakan saksóknara. Ánægjuleg er sú samstaða, sem er á þingi um hinn sérstaka saksóknara, heimildir hans og starfsmannafjölda.

Kammersveit Reykjavíkur flutti tónlist eftir tékknesk tónskáld í Listasafni Íslands klukkan 20.00. Selma Guðmundsdóttir lék einleik á píanó, Daði Kolbeinsson óbó, Þórunn Marínósdóttir á víólu og Rut Ingólfsdóttir á fiðlu.