30.3.2009

Mánudagur, 30. 03. 09.

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar klukkan 08.30. Við sjálfstæðismenn í nefndinni teljum vinnubrögðin þar fyrir neðan allar hellur. Öllum er ljóst, hve sú meginregla er mikils virði, að sæmileg sátt sé milli stjórnmálaflokka um breytingu á stjórnarskránni, en það viðhorf hefur ekki enn náð til meirihlutans í sérnefndinni, því miður.

Tveir nýir flokksformenn voru kjörnir um helgina, Bjarni Benediktsson í Sjálfstæðisflokki og Jóhanna Sigurðardóttir í Samfylkingu. Athygli vakti, að Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sem talar jafnan um sig sem hæstvirtan forseta, þegar hann flytur mál af forsetastóli, sá ekki ástæðu til að óska þingmönnunum til hamingju með hið nýja og mikla traust, sem þeim hefur verið sýnt. Sturla Böðvarsson, þáverandi forseti alþingis, óskaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni heilla hinn 20. janúar, þótt Sigmundur Davíð sæti ekki á þingi.

Guðbjartur gleymdi ekki aðeins sjálfsögðum heillaóskum heldur virtist hann ekki vita, að þennan dag fyrir 60 árum samþykkti alþingi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og ráðist var á það af æstum múg frá Austurvelli auk þess sem hvítliðar gengu til liðs við lögregluna til varnar alþingishúsinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, minntist dagsins í stuttri ræðu í tilefni dagsins.

Klukkan 17.00 kom fámennur hópur NATO-andstæðinga saman við styttu Jóns Sigurðarsonar á Austurvelli til að minnast aðfararinnar að alþingi með einhverjum gjörningi.IMG00040-20090330-1707

Þessa mynd tók ég úr glugga þinghússins af hópnum við styttu Jóns Sigurðssonar en nýtt kerfi frá Hugsmiðjunni auðveldar mér að setja myndir hér á síðuna. Kannski á ég eftir að gera meira af því að myndskreyta.