12.3.2009 21:05

Fimmtudagur, 12. 03. 09.

Þeir ættu að biðja okkur sjálfstæðismenn afsökunar, sem réðust á okkur í upphafi vikunnar fyri að tefja störf alþingis með málþófi. Við nýttum rétt okkar til að tala í málum, sem nauðsynlegt er að skýra og reifa. Sérstaklega þótti mér Morgunblaðið verða sér til skammar með því að fara út í foraðið með Merði Árnasyni.

Heimir Már, fréttamaður á Stöð 2, var að segja fréttir af þingi í kvöld og hélt þar fram, að við sjálfstæðismenn hefðum rætt stjórnarskrármál fyrir auðum sal fram til klukkan 23.00 í gærkvöldi. Þetta er gjörsamlega úr lausu lofti gripið. Þingstörf í gærkvöldi snerust um allt annað, því að stjórnarskrárumræðunum lauk klukkan 16.00 í gær samkvæmt samkomulagi um það, hvernig þeim skyldi háttað. Í gærkvöldi var tveimur málum, þar sem ég er fyrsti flutningsmaður, vísað umræðulaust til þingnefnda - ég flutti ekki einu sinni framsöguræðu og greiddi þannig fyrir þingstörfum.

Ríkisstjórninni og framsóknarmönnum er fullljóst, að við munum beita því afli, sem við höfum til að koma í veg fyrir afgreiðslu á frumvarpinu um breytingu á stjórnarskránni í þeirri mynd, sem það er nú. Þeim er einnig ljóst, að við erum tilbúnir til að semja um málið á þann veg, að ákvæðið um það, hvernig stjórnarskránni verði breytt í framtíðinni nái fram að ganga. Þetta er sanngjörn lausn og með henni er unnt að ljúka öllum málum á þingi á skömmum tíma okkar vegna.

Líklega er borin von, að þeir, sem standa að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur átti sig á skynsemi þess, að ljúka þingi sem fyrst, eftir að það hefur verið rofið, eins og gert verður á morgun. Að halda þingi áfram, eftir að það er rofið, er þverstæða og óskiljanlegt, að Jóhanna Sigurðardóttir tali eins og ekkert sé eðlilegra. Þegar stjórnarskránni var breytt 1991 og ákveðið að umboð þingmanna rynni ekki út við þingrof, var það gert til að koma í veg fyrir, að forsætisráðherra, sem hefði ekki meirihluta þings að baki sér gæti rofið þing, en það gerðist 1974.

Í Danmörku en þangað sækjum við fyrirmynd í stjórnskipunarmálum hverfa þingmenn snarlega á brott, þegar forsætisráðherra hefur boðað til kosninga eins og felst í ákvörðun um þingrof. Þar hefur þing víst einu sinni komið saman, eftir að hafa verið rofið, það var til að efna til málamyndaumræðna vegna stefnuræðu forsætisráðherra en um tímasetningu hennar gilda stjórnarskrárákvæði í Danmörku.

Losaraleg túlkun á ýmsum grunnreglum stjórnskipunarinnar við myndun og síðan í störfum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vekur efasemdir um, að forsætisráðherrann átti sig á ábyrgð sinni. Hitt kemur ekki á óvart, að hún hafi ráð um eðlilega varúð að engu eða láti stjórnarskrána ekki njóti vafans, sem var þó höfuðmál hennar og Steingríms J. Sigfússonar í stjórnarandstöðu. Nú er allt sagt leyfilegt, af því að fólkið heimti það!